145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og hún dró fram liggur fyrir eftir þennan tíma, tvö og hálft ár í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar, mjög langur listi af ákvörðunum sem snúast bæði um að afsala ríkissjóði tekjum en líka ákvörðunum sem gagnast betur þeim sem meira mega sín og síður þeim sem minna mega sín. Þær rýra kerfin okkar, barnabótakerfið, vaxtabótakerfið o.s.frv. Þetta eru ákvarðanir sem beinlínis vinna gegn jöfnuði. Þegar ég segi að það sé annar valmöguleiki í stöðunni á ég við að það er mín pólitíska skoðun og afstaða að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að í næstu alþingiskosningum liggi fyrir skýr valkostur fyrir kjósendur. Þá er ég ekki að tala um neitt annað en það að kjósendur átti sig á að það sé hægt að kjósa flokka og hreyfingar sem eru annarrar skoðunar en þeirrar að það eigi að vinna gegn jöfnuði. Þegar ég segi að þessi valkostur sé fyrir hendi á ég við að þegar stjórnarandstaðan á Alþingi leggur fram sameiginlegar breytingartillögur sem allar hafa að markmiði að draga úr misrétti í landinu, styrkja innviði samfélagsins og auka félagslegt réttlæti erum við að tala um að þessir fjórir flokkar búi yfir sameiginlegri meginsýn á það um hvað samfélag á að snúast, þ.e. að það eigi að snúast um möguleika allra til að lifa með reisn. Ég tel að þeir flokkar eigi að tala fyrir slíkum valkosti fyrir næstu kosningar.