145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að byrja á að taka undir þau orð hv. þingmanns að það eru vonbrigði að ekki hefur heyrst orð um að taka undir kröfuna um kjarabætur til eldri borgara og örorkulífeyrisþega. Mér finnst það alveg óskaplega dapurlegt núna nokkrum dögum fyrir jól.

Hv. þingmaður kom inn á fjölmargt í ræðu sinni og það eru allt gríðarlega mikilvægir hluti þegar kemur að því hvernig samfélag við ætlum að hafa á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi greiðslur til lífeyrisþega, heilbrigðismálin, barnabætur, fæðingarorlof og kom aðeins inn á menntamálin í lokin og þetta eru allt alveg gríðarlega stór atriði í velferðarsamfélagi. Hv. þingmaður sagði einnig að verið væri að veikja kerfið núna og það mundi koma okkur í koll síðar.

Það er alveg ljóst að þetta kostar allt saman peninga og þess vegna æpir á mann að það þurfi að auka tekjur ríkisins en ekki skera þær niður. En það er hins vegar ekki planið. Eins og kom fram í ræðu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er framtíðarplanið að draga enn meira úr samneyslunni, um tugi milljarða til ársins 2019.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða framtíðarsýn er það þá eiginlega sem blasir við okkur miðað við stöðuna sem við erum í í dag þar sem vantar peninga og það á að minnka samneysluna enn meira?