145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Hún vitnaði í hæstv. forsætisráðherra, að hann hefði sagt að ekkert yrði samið um nokkurn hlut við stjórnarandstöðuna. Ég missti af þessu sjálf en spyr hv. þingmann hvort ég hafi skilið hana rétt. Ég var mjög hissa að heyra þetta þar sem við erum að tala um mál sem njóta mikils stuðnings úti í samfélaginu, sérstaklega hvað varðar aukin framlög til Landspítalans og svo kjör aldraðra og öryrkja.

Hv. þingmaður fór yfir það að við í minni hlutanum gerum þá kröfu að aldraðir og öryrkjar fái hækkun frá 1. maí afturvirkt. Við miðum það við 10,9%, Landssamband eldri borgara miðar við 14,5% en við höfum verið með undirsamninga frá VR og Flóabandalaginu og gerum jafnframt kröfu um að þeir fái 5,9% frá 1. maí 2016. Við hvorugu er brugðist af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Fyrr í dag svaraði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra spurningu frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, eitthvað á þá leið að það væri svo mikilvægt að hafa lífeyri öryrkja lágan vegna þess að ungir menn væru margir að flosna upp úr skóla, gætu ekki fótað sig og yrðu öryrkjar þannig að það væri mjög mikilvægt að halda öllum, ég skildi hann þannig, undir lágmarkslaunum til að búa til einhverja hvata fyrir öryrkja að fara út á vinnumarkaðinn. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þessi ummæli (Forseti hringir.) formanns Sjálfstæðisflokksins.