145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti einmitt ágætissamtal um þetta við hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur þar sem ég spurði hana út í hvernig það væri með safnliðina í ráðuneytunum þar sem ráðuneytisfólk hefði í rauninni tögl og hagldir og við hefðum athugasemdir við það sem væri í gangi þar. Eins og hún benti á mætti t.d. hugsa sér að það væru einhverjar fagnefndir sem sæju um að úthluta og rótera. Það væri þá eins opið og gagnsætt og hugsast getur. Það skiptir máli. Um það giltu stjórnsýslulög. Það er engin leið fullkomin en það sem við verðum að reyna að gera er að tryggja jafnræði. Við tryggjum ekki jafnræði með því að fólk sitji í fjárlaganefnd og deili út, jafnvel eftir eigin geðþótta. Það gerum við ekki.