145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að ræða safnliði við hv. þingmann. Það hefur verið gagnrýnt að ekki sé nógu vel staðið að úthlutun safnliða í ráðuneytum. Menn voru óánægðir með það sem fyrir var og það mátti alveg gagnrýna það fyrirkomulag þegar nefndirnar voru með það í fanginu að útdeila úr þessum safnliðum. Þó var vissulega ákveðin þekking í þeim nefndum og þingmenn voru kannski ekkert óvilhallari en embættismenn.

Gæti hv. þingmaður séð fyrir sér að þetta hlutverk sem er komið inn í ráðuneytin, að útdeila úr safnliðum eftir umsóknum, fari til landshlutasamtakanna sjálfra, sú púllía sem ákveðið er að setja í þetta, og að landshlutasamtökin taki að sér það verkefni að vinna með útdeilingu safnliða eftir umsóknum?