145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað býsna dramatísk lýsing hjá seðlabankastjóra að það sé aðeins eitt skot í byssunni því að auðvitað kann að vera að hér vanti ekki alla fjárhæðina upp á að dugi. En hver svo sem fjárhæðin er þá eru afleiðingar af því að semja af sér í þessu efni alveg skýrar. Þær bitna á lífskjörum í landinu. Þær leiða til þess að ríkissjóður þarf að borga meira í vexti og getur lagt minna í velferðina. Það getur líka leitt til þess að lánskjör landsins og þar með ríkissjóðs versni og þar af leiðandi hækki vextirnir sem aftur hefur áhrif á fjárfestingu í atvinnulífi, því að þegar fyrirtækin sækja lán til að fara í fjárfestingar eru vextir á þeim lánum byggðir á þeim vöxtum sem ríkissjóður nýtur hverju sinni og versni þeir þá versna horfur og hagnaðarvon fyrir nýjar fjárfestingar.