145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er gríðarlega mikilvægt líka að átta sig á því að þegar kemur að hlutverki RÚV er það miklu stífara og mikilvægara gagnvart tungumálinu okkar en kvaðir sem lagðar eru á aðra fjölmiðla. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga. Það er sér í lagi mikilvægt nú á tímum þegar maður sé mikla hnignun tungunnar okkar. Það er bara þannig. Sterkasta mótsvarið er að tryggja að það sé gott aðgengi að réttri íslensku í fjölmiðlunum. Það er átakanlegt að lesa netfjölmiðla. Ég fæ til dæmis útskriftir af umfjöllun í útvarpi og mér finnst tungumálinu okkar hafa hrakað mjög. Það er grunnstoð sem þarf að tryggja að sé í lagi hjá Ríkisútvarpinu. Fréttirnar á vef þess eru mjög illa skrifaðar og greinilega ekki prófarkalesnar. Mér finnst bagalegt að enginn prófarkalestur er lengur hjá fjölmiðlum landsins.

Hlutverk RÚV er mjög vel skilgreint. Þetta er stofnun sem heyrir undir okkur. Það er okkar að tryggja að meginhlutverk RÚV fái að blómstra og þroskast og þróast í takti við þá tíma sem við búum við í dag. Það er því miður ekki hægt við núverandi aðstæður. Við skulum gera eitthvað í því.