145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt 40 mínútna ræðu á laugardag til að sýna fram á að stóru línurnar sem birtast í þessu fjárlagafrumvarpi eru þær að það er ekki verið að borga niður nafnverð skulda og samtímis verið að draga úr samneyslunni. Það kemur mér ekki á óvart. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bentum á þetta ásamt hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur og sennilega fleirum þegar við ræddum ríkisfjármálaáætlun til ársins 2018, á síðasta ári frekar en fyrr á þessu ári. Þar birtist þetta algjörlega skýrt. Það er ljóst að ríkisstjórnin stefndi samkvæmt henni að hvoru tveggja. Í fyrsta lagi kom þar fram að ekki ætti að verða umtalsverð niðurgreiðsla á nafnverði skulda. Um leið var algjörlega ljóst að það átti heldur ekki að auka samneyslu.

Núna spyr hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hvernig mér lítist á blikuna. Mér líst ekki nægilega vel á hana. Ástæðan er sú að við erum núna í blússandi góðæri, sem vonandi varir svolítið lengur, en nýtum ekki tekjumöguleika ríkisins. Það kemur fram á mörgum stöðum í nefndaráliti meiri hlutans að í fyrsta lagi er að sjálfsögðu ekki verið að greiða niður skuldir á þessu ári. Í öðru lagi eru engar líkur á því, miðað við það sem meiri hlutinn segir sjálfur í nefndarálitinu, að það verði niðurgreiðsla skulda sem einhverju nemi á næstu þremur árum. Ríkisstjórnin er að missa af gullnu tækifæri til að gera tvennt, skapa fyrningar til að greiða niður nafnverð skulda og lækka þar með vaxtagjöld ríkisins og nota góðærið til að ráðast í fjárfestingar í brýnum verkefnum í samfélagslegum innviðum. Þrátt fyrir þetta skilar ríkisstjórnin í blússandi góðæri bara 10 milljarða afgangi sem minnkar meira að segja næstum því um helming millum umræðna vegna breytingartillagna fjárlaganefndar. Það gerir það að verkum að þriðja árið í röð heldur þessi ríkisstjórn einungis jöfnu. Þar áður sat ríkisstjórn sem fimm ár í röð bætti stöðu ríkissjóðs. Ég held að hv. þingmaður geti séð hvert þetta (Forseti hringir.) þróast. Það er ekki góð leið.