145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugleysi hæstv. ráðherra er með þeim fádæmum að mann svíður niður fyrir þind. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir gerði að umræðuefni fjarveru hæstv. menntamálaráðherra úr þessari umræðu. Hér hafa menn tekist hart á vegna RÚV. Hæstv. menntamálaráðherra kom hingað í gær og varð sér til algjörrar skammar þegar hann sat og þrumdi hér á bekk og neitaði að svara spurningum hv. þingmanna.

En hvað finnst hv. þingmanni um frammistöðu þess ráðherra sem fer með málefni aldraðra og öryrkja? Hefur hv. þingmaður séð hæstv. ráðherra, Eygló Harðardóttur, hér síðustu daga? Nei. Hæstv. ráðherra, Eygló Harðardóttir, er í felum. Hún vill ekki láta sjá sig á þinginu vegna þess að það er hún sem er ábyrg fyrir þeirri stöðu sem er komin upp varðandi málefni aldraðra og öryrkja. Það er hún sem ber ábyrgð á því að það eina sem aldraðir og öryrkjar hafa fengið út úr núverandi ríkisstjórn, þegar búið er að taka tillit til skatta, eru einar skitnar 10 þús. kr. Á sama tíma koma þessir hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarliðsins og tala um það eins og þeir séu guðsgjöf til aldraðra og öryrkja. Þó liggur það fyrir að þeir hv. þingmenn hafa svikið öryrkja og aldraða, þeir hafa skilið þann hóp eftir einan sem fær ekki afturvirkar hækkanir. Hvað sem hv. þm. Brynjar Níelsson ybbir sig úr sínu sæti þá er staðan bara þannig að hækkun í byrjun árs upp á 3% og önnur í byrjun næsta árs þýðir að engin hækkun er þar á milli. Það eru allir aðrir, þar á meðal hv. þingmaður og ég og hæstv. ráðherrar, allir í samfélaginu hafa fengið afturvirkar bætur nema aldraðir og öryrkjar. Hvert eiga þeir að koma ef ekki hingað? Finnst ekki hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur það vera hreinn rakinn skandall að hæstv. félagsmálaráðherra, sem fer með málefni aldraðra og öryrkja, láti ekki einu sinni sjá sig í umræðunni?