145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er þá einfaldlega komið fram fyrst hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson hefur ítrekað ekki orðið við boðum um að koma til umræðunnar dag eftir dag að hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson þorir ekki að taka umræðuna, treystir sér ekki til að koma í pólitíska umræðu, hvorki um viðskilnað sinn við Landspítalann né um einkavæðingaráform sín. Það er líkt ráðherranum því að það sem hann hefur verið lagnastur við á kjörtímabilinu er að koma sér hjá því að ræða þau umdeildu mál sem hjá honum eru.

En það var annar hnípinn ráðherra í vanda sem var kallaður hingað í gær. Hæstv. menntamálaráðherra treysti sér sannarlega ekki í að ræða um RÚV en hann sýndi þó þinginu og forsetanum þá virðingu að mæta til umræðunnar og hlusta. Ég hvet Kristján Þór Júlíusson til þess, þó að hann þori ekki í umræðuna, að koma á ráðherrabekkinn og hlusta að minnsta kosti á hv. þm. Ögmund Jónasson.