145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, miðlunum fjölgar, en það er ekki alveg það sama miðill og fjölmiðill. Mér finnst fólk stundum tala eins og facebook-síða hvers og eins einstaklings sé fjölmiðill sem hún er auðvitað ekki, hún er miðill hvers og eins einstaklings, hún þarf ekki að uppfylla neinar lýðræðislegar skyldur eða gæta fjölbreytni eða fjölræðis. Ég held að það sé mikilvægt að ræða fjölmiðlamarkaðinn og hvernig hann hefur þróast og hvað hið opinbera getur gert til að tryggja að hann blómstri.

Ég vil minna á að þegar lög voru sett um fjölmiðla á síðasta kjörtímabili þá var það gert í kjölfar vinnu nefndar með fulltrúum allra flokka sem komst að sameiginlegri niðurstöðu og skilaði þeim tillögum til mín, sem þá gegndi embætti hæstv. ráðherra. Ég ítreka því þá hvatningu sem ég kom með hér áðan til hæstv. ráðherra að vænlegasta leiðin til að ná sátt um þessi mál er að sú vinna sem unnin er í aðdraganda slíkra mála sé í góðu samráði, ekki bara milli flokka heldur milli fleiri aðila, en það er mikilvægt að hún sé unnin í þverpólitísku samkomulagi.