145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eitt af því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni var hvernig hlutirnir eru reiknaðir í frumvarpinu, m.a. miðað við tillögu okkar í minni hlutanum um framlög til Landspítalans, það virðist ekki vera gert ráð fyrir magnaukningu eða fullum launabótum. Ég hef áhyggjur af því að fljótlega á komandi ári þurfum við í fjárlaganefnd í okkar eftirliti að takast á við halla. Það er búið að segja að ekki verði hægt að takast á við reksturinn að óbreyttu nema með miklum tilfærslum og auknum niðurskurði sem spítalinn telur sig ekki geta framkvæmt eigi hann að geta sinnt sínum löglegu skyldum. Af því hefur maður áhyggjur og er kannski hluti af því sem verður til þess að við leggjum þetta til.

Ég ætla ekki að deila um að það fari töluverðir peningar í heilbrigðiskerfið, það kostar að byggja samfélag og við vitum það. Við erum að tala um svipaðar tölur og 2007 eða 2008 sem Landspítalinn er að komast í, ef ég man þetta rétt. Það breytir því ekki að staðan er eins og hún er. Ég hef ekki ástæðu til þess að ætla að forstjóri Landspítalans fari með rangt mál og gleymum því ekki að forstjórar hafa nú farið frá vegna þess að þeir hafa ekki treyst sér til að sinna Landspítalanum miðað við fjárveitingarnar sem hafa verið. Ég hef áhyggjur af því að við missum enn frekar fólk frá okkur ef ekki verður tekið á þessu en líka af því að við þurfum að hugsa um samfélagslegar kvaðir. Þetta snýst ekki bara um að stemma af kassann í lok dags, eins og góður maður sagði.

Svo er vert að hafa í huga að fram hefur komið að fjárveitingar til innviða heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi, þ.e. til endurnýjunar og viðhalds húsnæðis, tækjakaupa og framþróunar, hafa verið með þeim allra lægstu hér á landi, en (Forseti hringir.) samkvæmt OECD þá verjum við að meðaltali mun minna fé til þessa en aðrar þjóðir.