145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra talaði um aukinn jöfnuð undir stjórn þessarar ríkisstjórnar. Síðustu mælingar sem OECD gerði eru frá árinu 2013. Þær miða við tölur frá árinu 2013 og síðustu tölur sem Hagstofan er með eru frá fyrri parti árs 2014. Þessar tölur byggja því á árangri vinstri stjórnarinnar. Ég hef áhyggjur af því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem m.a. birtast í fjárlagafrumvarpinu muni leiða til aukins ójöfnuðar.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talar um að aldraðir og öryrkjar verði jafnsettir og aðrir í þessu samfélagi og jafnvel betur má á honum skilja. Aldraðir og öryrkjar hækkuðu um 3% 1. janúar 2015. Lægstu laun í VR og Flóabandalaginu hækkuðu um 10,9% frá 1. maí 2015. Er þá hægt að segja að þessir hópar séu jafnsettir? 1. maí 2016 mun það fólk hækka um 5,9% (Forseti hringir.) og ekki er gert ráð fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái sömu launabætur. Hér er verið að blekkja fólk með röngum tölum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)