145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:01]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Afstaða stjórnvalda til byggðanna í landinu og eiginlega til lífsins í landinu birtist í því hvernig staðið er við langtímaáætlanir í málefnum landsbyggðarinnar, ekki síst í því hvernig staðið er við sóknaráætlanirnar sem voru mjög gott verkefni sem hleypt var af stokkunum á síðasta kjörtímabili með afar víðtæku samstarfi og samráði við alla hlutaðeigandi í landshlutasamtökunum. Það er ömurlegt að horfa upp á það hvernig ríkisstjórnin ætlar síðan að bregðast landshlutunum með þeirri snautlegu peningalús sem sett er í þennan málaflokk núna, 63,5 millj. kr. Hér er gerð tillaga af minni hluta fjárlaganefndar, stjórnarandstöðunni, um að auka þetta, ríflega fjórfalda fjárframlagið, í 400 milljónir. Það er eiginlega (Forseti hringir.) það minnsta sem hægt er að komast af með.