145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum 400 milljónum, ég ætla ekki að draga dul á það. Mikið fé vantar í löggæsluna, eins og við þekkjum, hana þarf að byggja upp eins og margt annað eftir erfið ár. En þetta dugar ekki til og þær 200 milljónir sem minni hlutinn gerði tillögu um, vegna kynbundins ofbeldis, eru fjárþörf en ekki yfirboð, það er alveg á hreinu. Ég hef eins og fleiri áhyggjur af því að þetta fari í að greiða hallarekstur vegna þess að mörg embættin eru ekki vel stödd, það hefur margítrekað komið fram, bæði hjá ráðuneytisfólki og ráðherra og í fjárlaganefnd. Ef féð fer í að greiða upp hallareksturinn erum við ekki að fjölga lögreglumönnum, hvorki almennum lögreglumönnum né lögreglumönnum í rannsóknarvinnu. Það er því miður veruleiki sem við stöndum frammi fyrir að lögreglan er allt of illa mönnuð, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum landsins.