145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Margt hefur verið sagt um ákvarðanir sem varða kjör lífeyrisþega í umræðu um þetta fjárlagafrumvarp. En það verður ekki hægt að líta fram hjá því að vorið 2011 þegar afar illa áraði í ríkisbúskapnum þegar gerðir voru láglaunasamningar var það ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar undir forustu Guðbjarts heitins Hannessonar að lífeyrisþegar skyldu njóta að fullu og öllu leyti þeirra kjarabóta sem sérstaklega var samið um í þeim láglaunasamningum umfram það sem lagaákvæði kváðu á um.

Nú hafa verið gerðir á nýjan leik láglaunasamningar og það blasir við að á þessu ári og því næsta muni lífeyrisþegar vera um átta mánaða skeið hvort árið með lægri tekjur en lágtekjufólk.

Tillagan sem hér liggur fyrir gefur stjórnarþingmönnum færi á að tryggja lífeyrisþegum jafnstöðu. Við höfum tekið eftir að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur lýst því yfir að hann fyrirverði (Forseti hringir.) sig fyrir atkvæðagreiðsluna sem fór fram um sama efni þegar fjáraukinn var til meðferðar og ég hlakka til að sjá hvernig stjórnarþingmenn allir sem einn greiða atkvæði við þessa atkvæðagreiðslu. Ég segi já.