145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við höfum öll heyrt sögur af gömlu fólki sem á ekki peninga fyrir mat. Við höfum öll heyrt sögur af fátæku fólki sem býr við veikindi, og kallast öryrkjar, sem á ekki peninga fyrir mat. Núna er jólamánuðurinn og ég veit um mjög marga sem kvíða fyrir næstu dögum því að þeir eiga ekki pening fyrir jólagjöfum handa börnunum sínum eða barnabörnunum. Hvers konar samfélag er það sem við búum í? Eitt ríkasta land í heimi og fátækt er viðvarandi hjá þeim sem eru veikir og skilgreindir sem öryrkjar — hvers konar samfélag er það? Nú þegar við höfum fengið gríðarlega miklar launahækkanir getum við ekki séð af peningum afturvirkt, eins og við fengum, til öryrkja og ellilífeyrisþega. (Forseti hringir.) Hvers konar samfélag er það? Og hvers konar samfélag endurspegla atkvæðagreiðslur í kvöld? Hvers konar ríkisstjórn? Ég segi að sjálfsögðu já.