145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið og ég þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa því yfir að um breytingartillöguna verði góð sátt, og ég á reyndar von á því. Ég þakka líka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir innlegg hennar í þetta mál því að mér hefur fundist mjög gagnlegt að sitja í utanríkismálanefnd og ræða þessi mál við hv. þingmann, sem ég efast ekki um að hafi einlægan áhuga á málaflokknum og hún hefur spurt þannig spurninga að ég hef ekki áhyggjur, svo ég svari lokaspurningunni, af því að við endum á einhverjum þeim stað að nota þetta mál til að undirbyggja einhvern frekari ágreining í þessu mikilvæga máli. Ég held að þegar þessu máli lýkur setjumst við öll niður saman og tökumst á við þróunarmálin sameiginlega eins og við höfum gert.

Ég vil trúa því að við getum einhvern veginn farið á svalirnar í þessu máli og horft yfir mikilvægi málaflokksins og látið formið ekki flækjast fyrir okkur. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég dreg ekkert undan í því, það er ágreiningur í þessum sal og ég ætla ekki einu sinni, þó að það gæti hljómað eitthvað skemmtilega pólitískt fyrir mig, að segja að þetta hafi verið allt tilgangslaus umræða hér og menn hafi verið að leika sér með málið. Ég ætla ekki að setja mig í þá dómarastöðu.

Ég trúi því að menn hafi mikla ástríðu fyrir málaflokknum og telji að breytingin sé ekki farsæl. En ég trúi því líka að hv. þingmönnum þyki það vænt um viðfangsefnið að við náum þegar þessu lýkur að vinna sameiginlega að málaflokknum eins og við höfum gert. Aðalatriði málsins er að við erum sammála um mikilvægi þessa máls. Við erum sammála um viljann til að gera vel. Okkur langar að gera vel í málaflokknum. En við getum verið ósammála um með hvaða hætti er best að halda á því í formi og fyrirkomulagi. Svar mitt er því þetta: Mér þykir miður að slíkur ágreiningur sé um þetta mál og að það sé í átakafarvegi, en ég held að við munum hefja okkur upp yfir það þegar málinu er lokið.