145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég var einmitt að hugsa um það sem hann ræddi síðast, að mega ekki mæla fyrir góðum málum, þau eru kannski mörg hver ekki endilega einhver svona „statement“ heldur er það vegna þess að manni finnst framkvæmdin stundum bagaleg á mörgum hlutum. Nú veit ég ekki hvenær hv. þingmaður lagði sín mál fram, en á haustþingi hefði einmitt verið hægt að ræða ótrúlega mörg mál, þingmannamál, sem fengu ekki að komast á dagskrá vegna þess að forgangsmálið var jú brennivín í búðir sem stíflaði allt vegna þess hvernig kerfið okkar er.

Þingmaðurinn tileinkaði ræðu sína núna eins og hann gerir endranær, segir hann, ferðamannastöðum og því klúðri sem hefur viðgengist af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og við þekkjum frá því hún tók við, varðandi þennan málaflokk. Við ræddum það einmitt mjög vel þegar fjáraukalögin voru tekin fyrir í fyrra sinn. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að það er mjög bagalegt að ekki skuli vera til nein áætlunargerð. Nú er búið að setja á stofn eða verið er að ganga frá samþykktum um að það verði enn ein stofnunin sett sem á að gera áætlun, þ.e. stjórnstöð ferðamála. Það er einhvern veginn alltaf verið að bæta í einhverja yfirbyggingu hjá ríkisstjórn sem segist vera að draga úr útgjöldum í stjórnsýslunni, en hún er að bæta í þar. Ég tek undir með hv. þingmanni, mér finnst það mjög bagalegt sérstaklega hvað varðar ríkissvæðin sjálf sem þurfa uppbyggingu. Ferðamálaráðherra segir að staðirnir hafi ekki verið tilbúnir með svæðin sín (Forseti hringir.) til að hefja uppbyggingu á og þess vegna hafi orðið eftir peningar inni í sjóðnum, ég álít að það sé ekki rétt. Mér finnst það mjög sérstakt (Forseti hringir.) ef ríkisstaðir eru líka þar eru undir.