145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sjálfbærni opinberra fjármála er eitt helsta markmið fjármálastefnu ríkisins. Hins vegar kýs þessi ríkisstjórn að horfa einungis á sjálfbærni út frá efnahagslegum þáttum í stað þess að horfa til hinnar alþjóðlegu skilgreiningar sem tekur á félagslegum og umhverfislegum þáttum.

Vinstri græn vilja að tryggð sé samþætting þessara þriggja þátta við ákvarðanatöku um leið og vísað er til þess að hver kynslóð lifi ekki á kostnað annarra.

7. gr., fjármálareglan, er óásættanleg og er ný og var ekki til umræðu á síðasta kjörtímabili. Þar eru svigrúmi við beitingu ríkisfjármálanna til skynsamlegrar hagstjórnar og sveiflujöfnunar settar of þröngar skorður. 30% viðmiðið byggist ekki á alþjóðlegum viðmiðum og má í því sambandi benda á Maastricht-samkomulagið.

Í heild hefur verið bent á að fjármálareglurnar leggi ekki lið við stjórn efnahagsmála á þenslutíma eða í aðdraganda ójafnvægis en geti verið til óþurftar við að vinna að afleiðingum á samdráttartíma sem fylgi í kjölfarið. Það er ljóst að hún mun breytast í framtíðinni eins og hér hefur verið rakið. Ég tel margt í frumvarpinu til bóta fyrir almenna stjórn ríkisfjármála (Forseti hringir.) en til að samstaða hefði náðst um hana hefði þurft að laga sig að þeim breytingum sem við vinstri græn lögðum til.

Ég mun því sitja hjá við atkvæðagreiðsluna en er á móti 7. gr. sérstaklega.