145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlaga fyrir árið 2016. Það er að finna á þskj. 678.

Málið var kallað til nefndar fyrir 3. umr. Í nefndaráliti hv. nefndar er gerð grein fyrir umræðu og niðurstöðu þeirra mála auk þeirra breytingartillagna sem nefndin leggur til hér við 3. umr.

Vík ég þá fyrst að samkomulagi um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Nefndin kallaði á sinn fund til að fjalli um málið eftirtalda aðila: Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Benedikt S. Benediktsson, Katrínu Önnu Jónasdóttur, Elínu Guðjónsdóttur og Björn Þór Jónsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Guðna Geir Einarsson frá innanríkisráðuneyti.

11. desember sl. tókst tímamótasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sem felur í sér endanlega niðurstöðu um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk samkvæmt lögum um málaflokkinn. Á grundvelli þessa lokasamkomulags ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk er gert ráð fyrir að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs verði hækkuð til að tryggja fjárhagsafkomu sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk og til að koma til móts við óskir sveitarfélaga um breiðari grunn tekjustofna sveitarfélaga. Samkomulaginu er ætlað að tryggja bætta afkomu sveitarfélaga á grundvelli núverandi þjónustustigs lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks.

Samkvæmt samkomulaginu bætist við lögbundna tekjustofna sveitarfélaga framlag sem nemur 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Einnig hækkar hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga úr 0,95% af útsvarstekjum sveitarfélaganna í 0,99%. Á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 13. nóvember 2013 var hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvarstekjum vegna málefna fatlaðs fólks hækkuð tímabundið um 0,04% árið 2014 og var sú hækkun framlengd fyrir árið 2015. Lagt er til að það hlutfall verði lögfest varanlega sem hluti af hámarksútsvari sveitarfélaga sem hækkar þá úr 14,48% í 14,52%. Samkvæmt samkomulaginu eru sveitarfélög bundin af því að 0,25 prósentustig af þeirri hækkun útsvars sem þeim er tryggð vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks renni beint til þjónustu við fatlað fólk innan viðkomandi þjónustusvæða.

Hlutföll bundinna framlaga til Sambands íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga eru lækkuð til að krónutala þeirra framlaga haldist óbreytt þó að 2,12% framlagið hækki. Þetta á einnig við um sérstöku framlögin vegna húsaleigubóta og jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts.

Nefndin leggur til breytingartillögu vegna framangreinds og er hana að finna á þskj. 680.

Ég ætla að fá að taka það fram sérstaklega, virðulegi forseti, að gert er ráð fyrir þessu í fjárlögum eins og við fórum yfir (Gripið fram í.) á fyrri fundi. Það ber að fagna því samkomulagi sem nú hefur náðst.

Vík ég þá að samsköttunarheimild í tekjuskatti. Við 2. umr. kallaði meiri hluti nefndarinnar breytingartillögur sem snúa að samsköttun og heimild til að færa tekjur milli skattþrepa til 3. umr. til að skoða áhrif fyrirhugaðra breytinga út frá sjónarmiðum kynjaðrar hagstjórnar. Að athuguðu máli telur meiri hluti nefndarinnar rétt að falla frá fyrri breytingartillögum sínum að því er varðar þann þátt sem átti að taka gildi að ári en leggur þess í stað til að áfram verði heimilt að færa tekjur að helmingi milli skattþrepa, eins og er í núgildandi lögum, þrátt fyrir að miðþrepið falli brott í ársbyrjun 2017, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Nefndin telur þó nauðsynlegt að ráðherra beiti sér fyrir því að skoðað verði út frá fyrirliggjandi heimild til samsköttunar og með hliðsjón af kynjaðri hagstjórn og jafnræði í skattamálum hver áhrifin kunni að verða af því að auka þá heimild. Nefndin metur það svo út frá fyrirliggjandi upplýsingum að boðaðar breytingar viðhaldi óbreyttu ástandi er varðar kynjaða hagstjórn. Nefndin leggur síðan áherslu á að úttektin skili sér í því að í framtíðinni verði hægt að meta áhrif skattbreytinga út frá meginmarkmiðum þar um, þ.e. um kynjaða fjárlagagerð.

Um breytingartillögu þessa efnis vísa ég í þskj. 680. Í ljósi þess sem ég hef nú farið yfir, virðulegi forseti, leggur hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég vísa til í þskj. 680.

Undir þetta rita hv. eftirtaldir þingmenn: Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigríður Á. Andersen, Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Bjarnason, Árni Páll Árnason, sem gerir það með fyrirvara, Guðmundur Steingrímsson, sem gerir það jafnframt með fyrirvara, og Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara.