145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur og verður mikilvægari. Núna er hlutfall aldraðra af mannfjölda um 11% samkvæmt spám Hagstofunnar sem ná til ársins 2060. Því er spáð að hlutfall aldraðra þá verði um 23%. Það þýðir að ef ég næ níræðisaldri, ef guð og gæfa lofar, þá verð ég meðal 100 þús. aldraðra sem búa á Íslandi. Það segir magnaða sögu. Það verður eftir rétt rúmlega 40 ár. Það er gríðarlega aðkallandi að hugsa hvernig við ætlum að bregðast við. Það verða 100 þús. manns sem þurfa þjónustu.

Ég geri ráð fyrir og veit að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir því að það hvernig við stöndum að þessari þjónustu er ein mesta aðkallandi áætlanagerð samtímans. Það að vinna ekki vel að uppbyggingu hjúkrunarrýma — ég vil setja heimahjúkrun líka undir þetta því að ég held að það sé nú mjög skynsamlegt og besta leiðin að vinna heimahjúkrun samhliða og vinna ekki síður á öflugan hátt að uppbyggingu hennar — ef við gerum það ekki, ef við vinnum ekki og stöndum ekki vel að rekstri hjúkrunarheimila og heimahjúkrunar þá verður kostnaðurinn við þjónustu við þennan stóra hóp gríðarlegur. Hæstv. ráðherra veit auðvitað að það er mjög dýrt að þessi hópur liggi á spítala og það gerir hann núna. Þannig að það að spara of mikið í rekstri hjúkrunarrýma og í heimahjúkrun þýðir auðvitað að verið er að spara aurinn og kasta krónunni.

Mér finnst líka skína í gegn í þessari umræðu að það er orðinn mjög aðkallandi vandi sá „díalóg“ milli ríkis og sveitarfélaga sem felst aðallega í því að ríkið veltir (Forseti hringir.) kostnaði við nauðsynlega þjónustu yfir á herðar sveitarfélaganna. Það er greinilega of freistandi fyrir ríkið að gera það. (Forseti hringir.) Ég held að lausnin á því hljóti að vera að tryggja tekjugrundvöll sveitarfélaganna og færa þeim verkefni í auknum mæli.