145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Á vef landlæknisembættisins er búið að taka saman mjög margar rannsóknir um einmitt þetta mál sem við ræðum hér. Allar sýna þær sama hlutinn; ef draga á úr áfengisneyslu þá skiptir aðgengið miklu máli og einnig verð á áfengi. Þar er auðvitað farið yfir bæði heilsufarsvandamál og samfélagsvandamál sem fylgja aukinni neyslu. Þeir sem skrifa þetta frumvarp og bera það uppi tala um hvort tveggja, bæði aðgengið og verðið og telja að ekki hafi verið sýnt fram á varanlegt orsakasamhengi á milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu og telja að vegna þess að álögur hins opinbera séu svo miklar ýti það fólki út í að brugga eða kaupa landa eða eitthvað slíkt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki þeim áhyggjum með mér að þeir sem bera þetta frumvarp uppi hafi ekki kynnt sér þessar rannsóknir landlæknisembættisins (Forseti hringir.) sem eru a.m.k. 30 ára sumar hverjar?