145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:27]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður heyrir mjög oft þessa setningu og fullyrðingu: Og rannsóknir sýna að aukið aðgengi eykur verslun. Þá er vísað í rannsóknir frá útlöndum sem eru framkvæmdar af fólki sem er að berjast gegn áfengisneyslu, í staðinn fyrir að horfa bara á veruleikann hér heima.

Hér hefur aðgengið aukist gífurlega á síðustu 25 árum, ekki bara í verslunum ÁTVR heldur á öllum þessum veitingastöðum sem eru á hverju horni. Alls konar staðir eru komnir með vínveitingaleyfi, gífurleg aukning hefur orðið á aðgengi. Engu að síður dregur úr neyslu ungmenna og yngra fólks. Þetta er bara statistík, þetta er bara veruleiki. En nei, þá kjósa menn að vísa í rannsóknir úti í heimi sem ég veit ekki einu sinni hvernig eru framkvæmdar og sjálfsagt mjög valkvætt hvernig það er gert.

Sama ræðan var hér þegar bjórinn kom, það mundi allt fara til andskotans í heilsufari þjóðarinnar, fyrir 25 árum eða hvað það var. Heilsufar þjóðarinnar hefur ekkert versnað síðan bjórinn kom. Ég get ekki einu sinni séð að áfengisneysla hafi yfir höfuð aukist ef tekið er tillit til fjölgunar þjóðarinnar á þessum tíma og þess að hér komi á aðra milljón ferðamanna. Ef allt er tekið til hefur neyslan sennilega ekkert aukist þrátt fyrir allt þetta. En það er samt hamrað á því að rannsóknir í útlöndum, hjá fólki sem berst gegn áfengisneyslu, sýni þetta og hitt og það er orðinn heilagi sannleikurinn. Horfum bara á íslenskan veruleika. Hver er hann? Hver varð hann með bjórkomunni? Neyslan miklu eðlilegri. Sennilega miklu hóflegri. Neysla ungmenna að minnka.

Ég veit alveg að margir eiga við vandamál að stríða. Stærsta vandamál þjóðarinnar er ekki neysla vímuefna, heldur er það neysla á óhollum mat og offita. Engum dettur í hug að fara að setja sælgæti, (Forseti hringir.) gos, snakk, í sérverslanir. Menn eru bara fastir í einhverju ótrúlegu afturhaldi sem greinilega er vonlaust að komast út úr.