145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann á móti hvort hann hafi kynnt sér rannsóknirnar fjölmörgu sem landlæknir bendir á, og hvort hann viti hverjir rannsakendur eru þar. Þetta eru bæði rannsóknir sem eru bandarískar og kanadískar, vestan hafs og austan og alls konar samanburðarrannsóknir gerðar af virtum fræðimönnum, ekki alltaf af stofnunum sem hafa einhvern sérstakan hag af því að fá niðurstöður sem sýna að aukið aðgengi að áfengi hafi skaðleg áhrif og að það skipti máli að það sé kostnaðarsamt að kaupa sér áfengi.

Forvarnir hafa virkað hér heima. En forvörnin er líka fólgin í því að aðgengið er ekki gott fyrir ungmenni. Það er ekki aðgengi fyrir ungmenni. En drykkja hefur aukist. Hún hefur aukist um leið og aðgengið hefur batnað hér á landi. Hún jókst líka við tilkomu bjórsins og breyttist. Um þetta eru líka til rannsóknir. Veruleikinn hér á landi hefur nefnilega verið skoðaður. Og við erum í varnarbaráttu með því að segja að við viljum ekki aukið aðgengi. Við óttumst það og teljum okkur nánast viss um það, af því við getum stutt það með rannsóknum, bæði innlendum og erlendum, að sá árangur sem við höfum náð í forvarnastarfi hjá ungu fólki gæti farið forgörðum.