145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlast ekki til þess að ég og hv. þingmaður verðum sammála um þetta frumvarp við þessa umræðu og það er gott og blessað í sjálfu sér. Hins vegar þykir mér áhugavert og mjög skemmtilegt frumvarp sem hv. þingmaður hefur lagt fram sem er 62. mál, en það inniheldur eina af breytingartillögunum sem koma fram í frumvarpinu sjálfu og varðar hlutfall áfengisgjalds sem rennur til lýðheilsusjóðs. Þetta er sá hluti af frumvarpinu sem stuðningsmenn þess hafa oft bent á og sagt að með þessu sé vissulega verið að koma til móts við lýðheilsuvinkilinn. Það sem ég átta mig ekki alveg á, og vona að hv. þingmaður geti sagt mér frá sýn sinni á það, er hvers vegna allt áfengisgjaldið er ekki notað í lýðheilsusjóð sjálfan eða einhvers konar sambærileg verkefni eða hvað eina, af hverju áfengisgjaldið er ekki notað til þess að greiða fyrir þau samfélagslegu vandamál sem koma af áfengisneyslu, sem eru ýmis og vissulega dýr, ekki bara í peningum.

Ástæðan fyrir að ég spyr að þessu er að hérna er oft komið með þá röksemdafærslu sem mér er persónulega mjög illa við að afleiðingar áfengisneyslu kosti samfélagið svo mikið í peningum, það kosti meira að viðhalda heilbrigðiskerfinu í kjölfarið. Mér finnst það alltaf mjög vond rök fyrir því að stjórna hegðun almennings í landinu almennt, mér finnst það vond rök, tenging milli tilhneigingar yfirvalda til að stjórna samfélaginu annars vegar og hins vegar samneyslunnar. Ég vil hugsa um þetta aðskilið. Það sem ég velti fyrir mér: Ef áfengisgjaldið er hugsað til þess að greiða fyrir skaðann af neyslu áfengis, hvers vegna fer ekki allt gjaldið til þess?