145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala Landsbankans á Borgun.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki til þess að uppi sé neinn grundvallarágreiningur um það hvernig standa eigi að sölu ríkiseigna Ég bara kannast ekki við þann ágreining eða í hverju hann er fólginn efnislega.

Frumvarpið sem vísað var til hér, varðandi stöðugleikaframlagið, er einmitt hugsað til þess að stórauka gagnsæi en á endanum verða einhverjir einstaklingar að taka ákvarðanir. Við getum ekki haft þetta þannig að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu í hvert sinn sem á að selja eignir. Það er ekki hægt að hafa það þannig. Það mál þolir alveg umræðu hér og það er (Gripið fram í.) komið til nefndar til efnislegrar meðferðar.

Síðan er það þannig, með allar þessar eignir sem er verið að vísa til, að menn skulu bara gefa sér tíma og vera ekki með sleggjudóma, gefa þá stjórnendum bankans tækifæri til að koma fyrir nefndina, eins og þeir hafa áður gert og ég er viss um að þeir eru tilbúnir til að gera aftur. Á endanum held ég að það væri ágætt að menn hugleiddu hversu mikilvægt er, í öllu þessu ljósi, til að draga úr tortryggni, að koma þessum eignarhlutum út til almennings. Þá geta menn verið vissir um að ekki er verið að reyna að toga upp stærri spotta eins og sífellt er verið að halda fram, heldur fara hagsmunirnir þá saman með ábyrgðinni.