145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari fyrst um muninn á þessum banka og þróunarbankanum kann hann að vera ekki svo mikill við fyrstu sýn. Þó er það þannig að verkefnin sem þessi nýja stofnun á að vinna eru meira fókuseruð á ákveðnari hluti en þróunarbankinn, það er kannski munurinn einna helst. Þetta er sem sagt svipuð nálgun á verkefnin. Ég held að þær muni styrkja hvor aðra, við sjáum það að minnsta kosti þannig fyrir okkur.

Varðandi DAC og hvort þetta sé almenn viðbót lít ég svo á að þetta verði viðbót, þetta komi ekki til með að skerða þau framlög sem við veitum til málaflokksins í dag. Ég held að engum detti það í hug.

Varðandi þungamiðjuna er rétt að Kínverjar eru leiðandi í þessu, en hins vegar er öll Asía undir þegar kemur að innviðauppbyggingunni og verkefnunum. Við vitum að nú þegar eru til dæmis íslensk fyrirtæki, eða í það minnsta fyrirtæki með íslensk tengsl, í verkefnum á sviði jarðhita í Kína, Indónesíu, á Filippseyjum, mögulega í Víetnam og á fleiri stöðum. Allt eru þetta dæmi um það þar sem unnið er að því að styrkja innviði, finna endurnýjanlega orku og ekki síst eru þetta þá líka tækifæri til að styrkja raforkukerfi sem er nauðsynlegt. Samgöngur eru annað og svo aðgangur fólks að því sem við teljum sjálfsagt, hreint vatn o.s.frv. Það eru næg verkefni, þau vantar ekki. Og fyrir íslenska aðila eru þarna klárlega tækifæri til að taka þátt í einhverjum verkefnum. Ég sá það á för minni (Gripið fram í.) um hluta Asíu fyrr í haust þar sem með í för voru íslenskir aðilar að þeir sáu þar ýmis tækifæri einmitt til að koma að slíkum verkefnum. Það kann að vera að þátttaka í þessum banka liðki fyrir slíku, þ.e. að þegar við komum með hugmyndir að verkefnum geti bankinn fjármagnað.

Ég held að ég hafi ekki tíma í öllu meira.