145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið hvað varðar þetta frumvarp.

Mig langar að ítreka spurningu mína. Hvenær eigum við von á öðrum tillögum að breytingum á lögum um kennitöluflakk eða það athæfi sem hæstv. ráðherra lýsti þar sem skuldir væru bara skildar eftir í þrotabúum? Það hafa verið uppi hugmyndir, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hennar sýn á þær, um að það væri einfaldlega hægt að setja hér reglur um að kanna betur hæfi forráðamanna fyrirtækja. Ef ég man rétt hefur til dæmis formaður efnahagsnefndar þingsins, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, viðrað slíkar hugmyndir.

Ég sé ekki að regluverkið þurfi að vera íþyngjandi í sjálfu sér því að hæstv. ráðherra leggur áherslu á að það sé einfalt. Ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á að regluverkið sé skýrt. Það má gjarnan vera einfalt en það verður að vera skýrt og ná þeim markmiðum sem því er ætlað. Eins og staðan er núna þá náum við ekki yfirlýstum markmiðum okkar um að sporna gegn kennitöluflakki. Þyrfti reglusetning sem miðar að því að meta hæfi forráðamanna fyrirtækja, eins og hefur verið í umræðunni, að vera svo íþyngjandi?

Ég velti þessu stundum fyrir mér þegar ég heyri sögur af fyrirtækjum sem setja svartan blett á alla hina og fara á milli og skilja eftir sig sviðna jörð. Neytendur sem eru oft fórnarlömbin í þessum málum hafa í raun enga möguleika á því að kynna sér sögu þessara fyrirtækja sem ætti samt að vera aðgengileg. Það er mjög íþyngjandi fyrir heiðarlegt fólk, sem stendur í atvinnurekstri, að þurfa að horfa upp á að þessi svarti skuggi falli á fyrirtæki þess líka á meðan við grípum ekki til markvissra aðgerða gegn kennitöluflakki.

Ég held að þegar við ræðum um íþyngjandi aðgerðir þá geti það í raun og veru orðið gríðarlega jákvætt skref fyrir atvinnulífið á Íslandi að fá markvissar aðgerðir gegn kennitöluflakki sem setur leiðindablæ á heildina þó að fæstir standi í slíku.