145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa Alþingi þessa skýrslu um þetta stóra og mikilvæga mál sem ég tel raunar að eigi að vera til hliðsjónar í allri stefnumótun okkar og umræðu hér á þingi. Ég var ein af þeim hv. þingmönnum héðan frá Alþingi sem fengu tækifæri til að taka þátt í loftslagsráðstefnunni í París, sem hefur af mörgum verið kölluð mikilvægasti fundur þessarar aldar. Við vitum það, gögnin sýna okkur það með óyggjandi hætti, að ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða gæti orðið of seint að snúa þróuninni við, þ.e. hlýnun af mannavöldum.

Það var áhugavert að fylgjast með þeirri umræðu sem varð á fundinum þar sem deilt var um hvort hlýnun ætti að vera í mesta lagi 2°C, innan við 2°C eða 1,5°C sem var það markmið sem Eyjaríkin og Kyrrahafið settu fram því ef svo heldur fram sem horfir og hlýnunin nær 2°C má búast við því að þessi ríki hverfi undir vatn. Þróun þessara mála er hins vegar svo hröð að við höfum síðan séð nýjar skýrslur sem hafa verið kynntar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem benda til þess að hækkun yfirborðs sjávar hafi verið hraðari á öldinni en áður hafði verið talið. Þannig þarf stöðugt að vera að endurmeta markmiðin út frá þeim nýju upplýsingum sem við erum að fá. Eitt af því sem var gríðarlega áhugavert í þeirri umræðu var að þessi ríki sögðu: Hér höfum við ekki gert neitt til að valda þessum breytingum, en við horfum eigi að síður fram á afleiðingar þess að hverfa undir vatn, þurfa að taka okkur upp með manni og mús og flytja eitthvert annað þótt við viljum það ekki, vegna aðgerða annarra. Það sem mér fannst hvað áhugaverðast var að þarna fengum við ekki bara að sjá umræður um raunveruleg úrlausnarefni þegar kemur að veðurfari, loftslagsbreytingum og öðru slíku, heldur siðferðisleg úrlausnarefni. Hver er þá ábyrgð hinna iðnvæddu þjóða sem hafa notið ávinningsins af þeirri losun sem átt hefur sér stað af mannavöldum gagnvart þeim þjóðum sem ekki hafa notið þessa ávinnings en þurfa hins vegar að bera skaðann?

Það sem vakti líka mikla athygli mína á þessari ráðstefnu er hvernig við sem störfum í stjórnmálum erum alltaf stödd í þeirri stöðu að við erum að fást við málin hér staðbundið, í okkar tilfelli á Alþingi Íslendinga, en um leið er verið að taka ákvarðanir á alþjóðavettvangi sem hafa áhrif á allt það sem við gerum og við höfum í raun lítil áhrif á. Það er kannski vandinn í loftslagsmálunum.

Ég get tekið undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, ég held að okkur hafi öllum verið óskaplega létt þegar samkomulag náðist, að upplifa þann mikla vilja sem var til staðar til að ná samkomulagi. En á sama tíma er verið auðvitað að ræða og reifa ýmis önnur mál á alþjóðavettvangi sem jafnvel vinna þvert gegn þessum markmiðum. Ég get bara nefnt sem dæmi fríverslunarsamningana TiSA og TTIP sem eru mikið í umræðunni núna þar sem er til dæmis verið að opna á fríverslun hugsanlega, samkvæmt þeim heimildum sem við höfum séð, með olíu og gas frá Bandaríkjunum til Evrópu sem gæti margfaldað umhverfisáhrif af olíu- og gasvinnslu í Bandaríkjunum. Þar er kannski verið að stíga skref á móti því sem við erum að stefna að í loftslagssáttmálanum í París. Það er gallinn. Þó að við séum sammála um markmið er staðan enn þá sú að ríki heims styðja miklu meira óendurnýjanlega orkugjafa með opinberum stuðningi en endurnýjanlega orkugjafa. Við munum ekki ná árangri ef það er stöðugt verið að taka ákvarðanir annars staðar á alþjóðavettvangi sem beinlínis ganga gegn því sem við stefnum að samkvæmt loftslagssamkomulaginu.

Um leið og við fögnum niðurstöðunni er alveg ljóst að þetta samkomulag breytir engu sjálfkrafa. Það sem ég tek hins vegar út úr þessum fundi er að ég held að við höfum séð að þarna var að fæðast ákveðinn sameiginlegur skilningur á því hvaða aðgerða er þörf. Samningurinn getur verið mjög mikilvægt tæki, til dæmis fyrir okkur stjórnmálamenn en líka almenning og líka fyrirtæki, stjórnvöld, stofnanir, til að beita hvert annað því nauðsynlega aðhaldi sem þarf til að vinna að markmiðum. Þetta samkomulag á að gefa okkur færi á að staldra við hverja einustu ákvörðun, hvort sem það eru fríverslunarsamningarnir sem ég nefndi hér áðan, ákvarðanir um nýfjárfestingar eða hvað það er, og spyrja: Bíddu, er þetta í takti við loftslagsmarkmiðin sem við erum búin að gerast aðilar að og styðjum? Eða erum við í raun og veru að vinna gegn þessum markmiðum af því að við erum að gera eitthvað inni í öðru sílói? Við þurfum að koma okkur út úr sílóahugsuninni, við þurfum að hugsa þvert á alla geira, við þurfum að ná að gera þetta jafn sjálfsagðan hlut við alla ákvarðanatöku og við höfum náð hægt og bítandi til dæmis að gera kynjajafnrétti að breytu sem á alltaf að vera til staðar þegar við tökum ákvarðanir. Nákvæmlega þess sama er þörf með loftslagsmálin. Við höfum hins vegar ekki langan tíma til að innleiða þá hugsun.

Mig langar að nýta þann stutta tíma sem ég á hér eftir til að nefna tvær tillögur sem ég held að væri gott ef kæmust á dagskrá Alþingis frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Annars vegar er tillaga sem við leggjum fram um stofnun loftslagsráðs, tillaga sem við höfum margoft lagt hér fram og snýst um að koma á sameiginlegum vettvangi helstu aðila sem fást við loftslagsmál, þ.e. Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, Háskóla Íslands, líf- og umhverfisvísindadeildarinnar, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Náttúruverndarsamtaka Íslands, umhverfisdeildar Landbúnaðarháskóla Íslands, Landverndar, Skipulagsstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Að við komum þannig á ráði sem verði stjórnvöldum ráðgefandi í því verkefni sem er að innleiða þessa hugsun í allt sem við gerum. Ég sé fyrir mér, ef þetta mál væri tekið hér til skoðunar á Alþingi, að við gætum líka rætt hvort við ættum að breikka þetta. Kalla til dæmis líka eftir aðkomu atvinnulífsins því að það er auðvitað mikilvægur þáttur, að atvinnulífið tileinki sér nýja hugsun í því hvernig það tekst á við loftslagsmál. Ég mundi fagna því ef stjórnvöld tækju þessa tillögu til skoðunar.

Hins vegar eru það markmiðin. Við erum með aðra tillögu hér um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050 þar sem við leggjum til að farið verði yfir alla okkar stefnumótun, hvort sem er í skipulagsmálum, samgöngum, orkubúskap, framleiðslustarfsemi, þannig að við náum því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust land árið 2050. Það mætti gjarnan vera fyrr mín vegna, ég tek það fram. Ef við gætum náð saman um það. Þar er verkefnið tvíþætt. Auðvitað að draga úr losun en líka að nýta bindingu. Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þó að við séum lítið land í hinu stóra samhengi geta litlar þjóðir haft gríðarleg áhrif með því að setja mál á dagskrá. Við höfum séð mörg dæmi um að litlar þjóðir hafa sett mál á dagskrá með raunverulegum árangri í alþjóðamálum með því hreinlega að setja málin á dagskrá en standa þá líka við stóru orðin. Það besta sem við Íslendingar getum gert, fyrir utan auðvitað að tala þessu máli á alþjóðavettvangi, er að vinna þannig hér á okkar heimavelli að við getum verið til fyrirmyndar, þannig að aðrar þjóðir geti lært af okkur. Við höfum mikil tækifæri til þess með okkar endurnýjanlegu orku. En þá verðum við líka að horfa á fleiri en eina tegund losunarbókhalds sem felst í samgöngum og bindingu, við verðum líka að þora að horfa á hitt losunarbókhaldið, hið sameiginlega, þar sem stóriðjan á heima, horfa á alla þessa þætti og muna að andrúmsloftið er eitt og hið sama þótt við séum með tvær tegundir af losunarbókhaldi. Það er auðvitað erfitt verkefni að ná einhverri sátt um slíka stefnumörkun. Við vitum það alveg. En við eigum ekki að vera hrædd við að ráðast í það verk og tala okkur saman um það. Árangur í loftslagsmálum mun ráðast af því hversu mikilli samstöðu við náum um að fylgja þeim markmiðum sem við nú þegar höfum gerst aðilar að og láta aðgerðir fylgja orðum.