145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega gaman að fá loks að koma hér upp og flytja þetta mál á þessu þingi. Við biðum allt síðasta þing, eða fyrir jól líka, með að fá að flytja þetta mikilvæga mál í okkar samtíma, sem er frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, bann við hefndarklámi. Flutningsmenn frumvarpsins eru auk mín þau hv. þingmenn Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson og Róbert Marshall; sem sagt allur þingflokkur Bjartrar framtíðar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að hefndarklám verði gert refsinæmt. Hefndarklám felur í sér dreifingu eða birtingu á myndum eða myndskeiðum án leyfis þess sem á myndefninu er og sem er til þess fallið að valda viðkomandi tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir hann. Oft er um að ræða nektarmyndir eða bersýnilega kynferðislegar ljósmyndir og/eða myndskeið af einstaklingi. Hefndarklám dregur nafn sitt af því að myndefninu er stundum, ekki alltaf, dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent frá sér í góðri trú.

Netið er lýðræðisvettvangur 21. aldarinnar og mjög mikilvægt tæki í upplýsingasamfélagi nútímans til að einstaklingar geti nýtt sér tjáningarfrelsi sitt. En við vitum samt sem áður að netið hefur sínar myrku hliðar, meðal annars af því að á netinu verða einstaklingar, einkum konur, oft fyrir mjög kerfisbundnu ofbeldi. Aðgengi að netinu er almennt og auðvelt og hefndarklám sem dreift er á netinu getur verið í dreifingu svo að árum skiptir. Þessi brot halda því bara áfram að eyðileggja líf fólks.

Brýnt er að skilaboð séu skýr til notenda netsins um að þegar þeir fá mynd í hendurnar eða myndband þá eigi þeir hana ekki og hafi ekki heimild til að dreifa henni áfram; sem sagt mynd eða myndband af þessu tagi, ég vil taka það skýrt fram. Á þetta ekki hvað síst við þegar um er að ræða mynd eða myndskeið sem augljóst er af efninu að ekki er ætlað til dreifingar, svo sem þar sem nekt kemur við sögu eða kynferðislegir tilburðir eða ástand sem augljóst er að einstaklingurinn á myndinni mundi ekki vilja að alþjóð eða heimurinn sjái. Mikilvægt er að fólk taki ábyrgð og taki ekki þátt í að dreifa slíku myndefni.

Síðustu missiri hefur mikil umræða verið um hefndarklám, bæði hér heima og erlendis. Í apríl í fyrra birtist frétt þess efnis að á erlendri spjallsíðu væru íslenskir karlmenn að skiptast á myndum af fáklæddum íslenskum stúlkum. Þær yngstu voru á fjórtánda aldursári og fram kom að hundruð mynda af íslenskum stúlkum væru komin inn á spjallsíðuna. Þá virðist raunin vera sú að konum í áberandi stöðum í samfélaginu, t.d. í kvikmyndaleik, hefur verið kerfisbundið ógnað með dreifingu á myndefni af þeim, sem er til þess fallið að lítillækka þær og kúga. Við höfum séð alheimssamfélagið bregðast við þessu. Við höfum séð mikla umræðu hér heima og erlendis og niðurstaðan er sú að í raun séu þessi brot eða þessar athafnir þannig að við séum að ræða um kynferðisafbrot í þessu samhengi.

Stór hluti fórnarlamba hefndarkláms er ungt fólk og jafnframt virðist hluti dreifenda hefndarkláms vera úr sama hópi. Því er mikilvægt að fræða ungt fólk um áhrif þess að dreifa hefndarklámi og um alvarleika slíkra brota. Ekki er nægilegt að fræða einungis um lagaleg áhrif þess, verði frumvarp þetta samþykkt, þó að slíkt muni augljóslega varpa ljósi á alvarleika gerninga sem þessara. Einnig er brýnt að fræða um sálræn áhrif þess á þolendur. Koma þarf öllum, þar á meðal börnum og ungu fólki, í skilning um hversu alvarlegt brot slík dreifing er og hversu víðfeðm og djúpstæð áhrif það getur haft.

Þá þarf að tryggja að þeir sem senda myndir af sér í grandvaraleysi geri sér grein fyrir því að slíkar myndir geta farið í dreifingu, en með því að gera dreifingu myndefnisins refsinæma minnka væntanlega líkur á því. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja að ábyrgðinni og sökinni sé ekki skellt á þolendur hefndarkláms — ég legg ríka áherslu á þetta — eins og við vitum að oft vill verða með þolendur kynferðisafbrota. Þetta má ekki verða í umræðunni um hefndarklám. Það er ekki við þá að sakast sem hafa sent frá sér efni í góðri trú. Það er við hina að sakast sem dreifa efninu og halda þannig áfram að beita fólki ofbeldi á þann hátt.

Frumvarp þetta er fyrsta skrefið í þá átt að tryggja að sökin lendi á þeim sem eiga að bera hana, dreifendum hefndarklámsins, og er skýr skilaboð til þolenda glæpa af þessu tagi um að mál þeirra séu tekin alvarlega sem og að kerfið standi með þolendum gegn þeim sem brotið hafa gegn þeim.

Ég ætla aðeins að fara í gegnum gildandi löggjöf, sem við höfum hér á landi nú þegar, sem er ekki tæmandi og þess vegna erum við í Bjartri framtíð að leggja þessa breytingu fram. Birting nektarmynda í óþökk þeirra einstaklinga sem á þeim eru hefur aukist gríðarlega en hér á landi hefur reynst erfitt að heimfæra slíkt athæfi undir ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Birting og dreifing myndefnis af þessu tagi getur varðað við ákvæði 233. gr. b laganna þar sem kveðið er á um að sá sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda, og verknaður verður talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum. Ákvæðið er þó ýmsum takmörkum háð enda nær það einungis til maka, fyrrverandi maka eða annarra nákominna einstaklinga en ekki annarra sem dreifa eða birta myndefni. Þá er ákvæðið tiltölulega nýtt í hegningarlögum, frá 2006, og þó svo að nokkur hefndarklámsmál séu til rannsóknar á grundvelli þess hefur það ekki verið grundvöllur dóms í hefndarklámsmáli.

Mig langar í þessu sambandi aðeins að nefna það að nú hafa ýmsir dómar — frá því að við birtum þetta frumvarp fyrst, það er ár síðan — verið að falla þar sem verið er að nota þetta ákvæði 233. gr. b, og það hefur sýnt sig að þetta gamla ákvæði, eða eins og það stendur nú, er ekki til þess bært að ná utan um hefndarklám. Það hafa nýlegir dómar sýnt, t.d. dómur sem féll nú síðast 10. desember 2015 í Hæstarétti. Þá sjáum við að dómarar telja til dæmis aðila sem hafa átt í sambandi ekki nógu skylda aðila til að þetta gamla ákvæði eigi við um það. Þarna er gat sem við þurfum að stoppa í og það er tilgangur frumvarpsins.

Birting myndefnis af þessu tagi getur einnig varðað við 229. gr. laganna þar sem kveðið er á um að hver sem skýrir opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæti verknaðinn, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þetta ákvæði, líkt og hitt í 233. gr. b, er í lögum sem snúa að ærumeiðingum og brotum gegn friðhelgi einkalífs. Hefndarklám er því marki brennt að um er að ræða gróft brot gegn friðhelgi einkalífs sem einnig getur talist til kynferðisbrots. Í þeim kafla laganna, þar sem verið er að fjalla um kynferðisbrot, eru ákvæði sem oft hefur verið vísað til í umræðunni um hefndarklám. Samkvæmt 2. mgr. 210. gr. hegningarlaga varðar það allt að sex mánaða fangelsi að útbýta eða dreifa klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum. Í 3. mgr. 210. gr. er kveðið á um að það varði sömu refsingu að láta slíkt af hendi við unglinga yngri en 18 ára.

Í mörgum tilvikum eru fórnarlömb hefndarkláms einstaklingar undir 18 ára aldri og þá fellur slík myndbirting undir lög um barnaklám og er því refsiverð með allt að tveggja ára fangelsi í samræmi við 210. gr. a hegningarlaga. Þegar hefndarklám er nýtt til þess að hóta, kúga eða neyða þann sem á myndefni er til greiðslna, kynferðislegra athafna eða annars slíks getur verið um að ræða brot á ýmsum ákvæðum hegningarlaga.

Myndbirting sem fellur undir hefndarklám getur einnig í einhverjum tilvikum varðað við höfundalög, nr. 73/1972. Þrátt fyrir framangreind ákvæði er ekki um að ræða skýr lagaákvæði sem gera hefndarklám refsinæmt. Með frumvarpi þessu er því lagt til að slíkum ákvæðum verði bætt við hegningarlög og tekinn af allur vafi um alvarleika brota sem þessara.

Ég vil líka aðeins fara í gegnum löggjöf nágrannalanda okkar og það sem við höfum verið að líta til þegar við sömdum þetta frumvarp.

Hefndarklám er, eins og við vitum, alþjóðlegt vandamál en er svolítið að koma upp á yfirborðið núna. Þjóðir og ríki í heiminum eru að vakna en ýmsar þjóðir hafa þó gert hefndarklám refsinæmt. Til dæmis hafa mörg ríki Bandaríkjanna þegar gripið til lagasetningar. Þar var New Jersey fyrst til að setja löggjöf um þetta efni árið 2003. Þar heyrir dreifing hefndarkláms undir brot á friðhelgi einkalífs en síðan þá hefur umræðan um hefndarklám þróast mjög og nú er ekki einungis litið á brot af þessu tagi sem gróf brot á friðhelgi einstaklinga heldur fyrst og fremst sem kynferðisbrot. Fleiri ríki Bandaríkjanna hafa nú gert hefndarklám refsinæmt og árið 2013 varð Ísrael fyrst landa til að setja slík lög.

Á Norðurlöndunum sjáum við umræðuna svipaða og hér á landi og þar er verið að vinna þetta. Ég ætla kannski ekki að fara sérstaklega yfir það hvernig þetta er þar, í þessari ræðu minni. Það kemur allt fram í greinargerð með frumvarpinu. En ég vil þó geta þess að Bretland hefur nýlega tekið upp löggjöf sem gerir hefndarklám refsinæmt.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á hegningarlögum, nr. 19/1940. Annars vegar er lagt til að dreifing og birting hefndarkláms verði skilgreind sem kynferðisbrot þegar um er að ræða birtingu eða dreifingu myndefnis eða myndskeiða sem sýna einstakling nakinn eða á kynferðislegan hátt í óþökk þess sem er á myndinni. Hins vegar er lagt til að við ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs bætist ákvæði sem geri birtingu eða dreifingu refsiverða þegar hún er til þess fallin að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir þolandann.

Dreifing og birting hefndarkláms, þar sem myndefni sýnir einstakling nakinn eða á kynferðislegan hátt, er vissulega til þess fallið að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða vera lítilsvirðandi fyrir hann. Okkur þótti ekki nægjanlegt að setja einungis ákvæði um bann við hefndarklámi. Við leggjum sem sagt til þessar tvær greinar og ég ætla að lesa þær upp.

1. gr. er svohljóðandi:

„Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum þar sem einstaklingur er sýndur nakinn eða á kynferðislegan hátt án samþykkis þess sem á myndunum er, skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“

Svo er hér 2. gr. sem við viljum bæta við, að á eftir 229. gr. laganna komi ný grein sem er svohljóðandi:

„Hver sem birtir eða dreifir myndefni, ljósmyndum, kvikmyndum eða sambærilegum hlutum og birting eða dreifing er til þess fallin að valda þolanda tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir þolandann skal sæta fangelsi allt að 1 ári en allt að 2 árum ef brot er stórfellt.“

Mig langar að beina því til nefndarinnar að tengja þessar tvær greinar betur saman, því að ég hef séð það, og við þegar við erum að skoða þetta eftir á, að það verður skýrara að láta 2. gr. skírskota til 1. gr., er mér sagt af lögfræðingum, svo að þetta sé svolítið samhangandi.

Ég er búin að fara ágætlega yfir þetta og ég fagna því að hafa fengið að mæla fyrir málinu. Ég hef beðið lengi og ég veit að samhugur er um það hjá þingmönnum í öllum flokkum að vinna þetta mál vel. Vonandi komumst við á þann stað að við náum að klára það.

Ég vona líka að við séum ekki í þeim leiða leik að vera í hrossakaupum með þingmannamál eins og þetta, eða með öll önnur góð mál sem breið samstaða er um. Ég vona að þetta fái eðlilegan framgang og að það sé ekki greiði við mig eða aðra þingmenn að það fái að fara í gegn. Ég vona að þingmenn allra flokka hugsi á þann veg að þetta sé réttarbót fyrir þolendur þess kynferðisofbeldis sem á sér stað á netinu. Við skulum ekki láta það skyggja á neitt annað.

Við þurfum að gera þessa bragarbót á lögunum því að þetta gamla ákvæði 233. gr. b hefur þröngan skilning, samkvæmt nýlegum dómum sem hafa fallið, og ég vísa þá í þennan dóm sem féll 10. desember í Hæstarétti. Skilgreining á sambandi þolanda og geranda er allt of þröng og við þurfum að hefja það upp úr því að við séum einungis að fjalla um fyrrverandi maka eða sambýlisfólk. Nú er það bara þannig, til dæmis samkvæmt þessum dómi 10. desember, að allt í einu er fólk sem hafði verið saman, átt í ástarsambandi, ekki skilgreint sem fólk sem átti í innilegu sambandi úr því að það var ekki skráð í sambúð eða eitthvað álíka. Það tekur ekki á þeim veruleika sem við búum við í dag, þannig að við þurfum að laga þetta.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni en hlakka til að heyra hvað nefndin segir og hvaða vitnisburð hún fær frá hinum ýmsu í samfélaginu, hvaða umsagnir hún fær. Vonandi geta nefndarmenn breytt og bætt ef þess þarf. Ég tek allri slíkri umræðu fagnandi.