145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar.

[16:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Á Íslandi búum við við tiltölulega sjálfbæra búskaparhætti þótt vissulega megi margt betur fara. Landbúnaður veldur vissulega losun gróðurhúsalofttegunda og framræsla lands veldur losun og nauðsynlegt er að endurheimta votlendi. Hvað varðar myndun metans í landbúnaði þá er brýnt að nýta metangasið sem eldsneyti, í orkuskipti, jafnt til sveita sem og annars staðar. Það eru líka miklir möguleikar til sveita að fara í orkuskipti og draga úr koltvísýringsútblæstri með því að nota raforku í auknum mæli. Fjölgun heimarafstöðva er vissulega þáttur í þeirri vegferð. Mikilvægi þess að Ísland sé sem sjálfbærast í matvælaframleiðslu eins og í kjöt- og mjólkurframleiðslu er mikið og ekki bara til þess að tryggja matvælaöryggi, heldur líka vegna þess að við drögum úr mengun með því að framleiða matvæli innan lands. Það fylgir auðvitað gífurleg mengun öllum flutningum til sjós og lands á matvælum.

Ísland er grasræktarland og hentar því vel til prótínframleiðslu. Sauðfé gengur á beit á fjöllum á sumrin og hér er ekki mikil kjarnfóðurnotkun. Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum t.d. að íslenska mjólkin dregur úr líkum á sykursýki og íslenska lambakjötið inniheldur talsvert af omega-3 fitusýrum. Það eru miklar fjárfestingar til sveita sem við þurfum að nýta til þess að framleiða góða og heilnæma landbúnaðarvöru. Það má vissulega ýmislegt gera til þess að draga úr því að landbúnaður valdi loftslagsbreytingum. Að því þurfum við öll að vinna. En ég tel að við Íslendingar höfum þar forskot að mörgu leyti og getur verið öðrum (Forseti hringir.) þjóðum til fyrirmyndar varðandi sem sjálfbærastan búskap.