145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:10]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2015. Henni hefur verið dreift sem þingskjali. Ég held að óhætt sé að segja að mikið starf hafi verið á þeim vettvangi eins og oft áður. Fyrir þá sem ekki þekkja til hefur þingmannanefndin í rauninni með tvennt að gera, EES-samninginn og sömuleiðis hefur EFTA verið með frumkvæði að því að gera fríverslunarsamninga víðs vegar um heiminn. EFTA er núna með fríverslunarsamninga við 36 ríki. Það hefur verið afstaða okkar í þingmannanefndinni, a.m.k. í meiri hlutanum, að ýta eftir því að fleiri fríverslunarsamningar verði gerðir.

Staðreyndin er sú og það er ótrúlega lítið um það rætt að við Íslendingar erum í mjög góðri stöðu að vera í EFTA og vera síðan með stóra samninginn við EES, en geta á sama tíma gert fríverslunarsamning við alla sem við viljum. Við njótum auðvitað góðs af því að vera með Svisslendingum og Norðmönnum þar sem eru stórir markaðir og kaupgeta mikil. Okkar markaður er líka eftirsóknarverður af augljósum ástæðum, en við erum einungis 320 þús. manns. Það er enginn vafi í mínum huga á að hægt er að nýta þessi tækifæri betur.

Munurinn á því að vera í Evrópusambandinu og í fríverslunarbandalagi eins og EFTA er að við ráðum viðskiptastefnu okkar. Ef við hefðum til dæmis, eins og sumir, ekki margir, láta í veðri vaka, áhuga á að verða aðilar að Evrópusambandinu yrðu menn að átta sig á því að þá værum við Íslendingar ekki lengur með viðskiptastefnu. Þá værum við aðilar að tollabandalagi. Það vita allir sem vilja vita að það tollabandalag hefur engan sérstakan áhuga á fríverslun í heiminum. Þeir sem stýra þeirri viðskiptastefnu og eru áhrifamestir, þá er ég að tala um bak við tjöldin því að fæst er uppi á borðum hjá Evrópusambandinu eins og menn þekkja, eru Frakkar. Frakkar eru mjög hallir undir kaupauðgisstefnu, eða merkantílisma, og hún einkennir alla áferð í viðskiptamálum Evrópusambandsins. Eðli málsins samkvæmt er tekist á um það innan Evrópusambandsins hjá þjóðum sem hafa lagt meiri áherslu á fríverslun í gegnum tíðina og hafa byggt sín veldi á því, eins og Bretland og Holland. Það er einmitt mikil umræða um viðskiptamál núna í Bretlandi í tengslum við hugsanlega útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og mikið rætt um hvað Bretland standi illa þegar kemur að gerð fríverslunarsamninga og fríverslunar almennt í heiminum vegna þess að þeir eru í samfloti með Evrópusambandinu.

Svo menn átti sig á því líka þá er sú gjörð að fella niður tolla nokkuð sem við gætum ekki gert ef við værum í Evrópusambandinu. Það liggur fyrir að áður en menn fóru í tollaniðurfellingarnar sem við þekkjum voru þær skoðaðar af hálfu stjórnvalda á síðasta kjörtímabili, þegar menn fóru í þá sérkennilegu vegferð að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og þá kom í ljós að vörur mundu hækka mjög í verði frá ákveðnum svæðum, sérstaklega Bandaríkjunum, ef við yrðum aðilar að Evrópusambandinu.

Það sem er svolítið sérstakt líka er að maður mundi ætla að út af sameiginlegri tollastefnu Evrópusambandsins væri lágur kostnaður fyrir aðildarríki þegar kæmi að tolleftirliti, en svo er ekki. Ef við berum okkur saman við Möltu þá minnir mig að kostnaður við tollinn þar sé helmingi meiri, ef ekki þrisvar sinnum meiri. Þetta er allt saman í gögnum sem ég sá hjá undirhópi síðustu stjórnvalda. Það er ekkert sérstaklega fjallað um það í þessari skýrslu Íslandsdeildarinnar. Ég held að það sé rétt að ræða viðskiptamál og viðskiptastefnu almennt núna. Það eru ótrúlega miklar rangfærslur og ranghugmyndir sem koma frá stjórnmálamönnum, kannski sérstaklega hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og annarra þingmanna sem eru fylgjandi Evrópusambandinu. Það er reynt að draga einhverja allt aðra mynd upp af Evrópusambandinu en raunveruleikinn sýnir. Þess vegna er ég meðal annars að vekja athygli á því hér. Sömuleiðis eru hinar umtöluðu stéttir oft á tíðum fullar aðdáunar á Evrópusambandinu og eru þá ekki beinlínis að upplýsa fólk um hvað felist í því að vera í því, heldur reyna frekar að búa til einhverja fagra mynd sem stenst ekki skoðun. Nú er ég ekki að segja að Evrópusambandið sé alvont þó að engin rök fylgi því að fara þangað inn, ég er að segja að ef við erum að hugsa um fríverslun er Evrópusambandið ekki staðurinn.

Ég vek aftur athygli á því að ef við værum í Evrópusambandinu hefðum við ekki getað farið í tollalækkanir. Við hefðum heldur ekki getað samið um fríverslun, ekki bara á vettvangi EFTA heldur líka ein og sér. Fríverslunarsamningurinn við Kína, sem er án nokkurs vafa það besta sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson gerði, stór samningur sem opnaði mikla möguleika, hefði til dæmis ekki verið möguleiki ef við værum aðilar að Evrópusambandinu.

Það hefur farið mikill tími í vinnu nefndarinnar í að fá upplýsingar á erlendum vettvangi um stöðu TTIP-viðræðnanna. TTIP-viðræðurnar ganga út á fríverslunarsamning milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Það er augljóst að Bandaríkjamenn, þó svo að þeir segi það ekki, eru búnir að gefast upp á því að reyna að ná slíkum markmiðum um fríverslun í heiminum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Það eru mjög slæmar fréttir vegna þess að sá vettvangur átti að tryggja heimsviðskipti. Það er augljóst að taka þarf stærri skref í nánustu framtíð. Það er búið að reyna í nokkra áratugi að ná því á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en það hefur ekki gengið eftir og þess vegna hafa Bandaríkjamenn farið aðrar leiðir. Þeir byrjuðu að semja við Kyrrahafslöndin, TPP. Það segir nokkuð um stöðu Evrópu því að fyrir nokkrum áratugum hefði verið óhugsandi að Bandaríkjamenn færu í slíka vegferð án þess að byrja á Evrópu. En nú er það bara þannig að vægi Asíuríkjanna við Kyrrahafið er stærra og meira og verður það í nánustu framtíð. Heimsmyndin er breytt og því munum við Íslendingar ekki breyta en við þurfum að taka mið af því þegar við ræðum þessi mál og gerum áætlanir.

Þetta eru tvær gerðir. Það er annars vegar fríverslunarsamningur við Kyrrahafsríkin sem er lokið að gera, ég verð nú að viðurkenna að ég veit ekki hvar það mál er statt í bandaríska stjórnkerfinu. Síðan er hinn samningurinn sem Bandaríkin fóru af stað með, það er fríverslunarsamningur við Evrópusambandið sem ber nafnið TTIP. Það er augljóst að það mun ekki gerast á neinum hraða. Síðustu upplýsingar frá íslenskum embættismönnum voru að honum yrði í fyrsta lagi lokið árið 2017 ef næst að ljúka þeim samningum. Þar eru tollar ekki stærsta málið heldur fyrst og fremst tæknilegar viðskiptahindranir.

Eftir að við gengum í EES duttum við Evrópusambandsmegin í viðskiptastríði sem gengur minnst út á tolla og snýst fyrst og fremst um allra handa tæknilegar viðskiptahindranir. Við sjáum þetta á amerískum vörum. Ef menn kaupa dós af amerískum baunum þá hefur þurft að líma einhvern skrýtinn miða á hana með sömu innihaldslýsingu og er á dósinni en það er bara miðað við 100 gr. í staðinn fyrir þá skammta sem eru á amerísku dollunum. Auðvitað er þetta fáránlegt og eykur bara kostnað fyrir neytendur. Það getur ekki verið mjög göfgandi vinna að standa í að líma svona miða á þessar dósir. Það sama á við um bíla og ýmislegt annað. Beggja vegna Atlantshafsins eru mjög strangir staðlar hvað varðar bílaframleiðslu. Það má ekki flytja bílana á milli nema með allra handa gjörningum vegna þess að ef farið er með bandarískan bíl til Evrópu þá uppfyllir hann ekki nákvæmlega staðlana sem eru þar og svo öfugt.

Það segir sig sjálft að ef þessum tæknilegu hindrunum væri rutt úr vegi þá væru það góðar fréttir fyrir heiminn, sérstaklega neytendur á þessum svæðum. Það eru tvær leiðir til að gera það. Annars vegar er að reyna að samræma staðlana, sem hræðir mig. Við Íslendingar og allir sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu sjá gríðarleg völd þeirra sem stýra staðlamálum, sem eru embættismenn. Þegar þeir búa til þessa staðla þurfa þeir að fara í gegnum Evrópuþingið og síðan þjóðþingin en eðli máls samkvæmt hafa þeir mest völd sem byrja á því að setja reglur um þessi tæknilegu mál. Þetta gengur oft og tíðum ansi langt og er sérkennilegt. Mér hugnast betur hin leiðin sem er sú að vera með gagnkvæma viðurkenningu, í þessu tilfelli beggja vegna Atlantshafsins, svo að þeir staðlar sem Bandaríkjamenn gera séu þá samþykktir Evrópumegin og öfugt.

Það er langt í að þessu ljúki, ef því lýkur. Þetta er gömul hugmynd. Einu sinni var þetta kallað TAFTA en ekki TTIP. Núna er verið að tala um TTIP og vonandi munu þeir samningar klárast, en það þarf margt að spila inn í. Það er náttúrlega markmið hjá bandarískum stjórnvöldum að klára samningaviðræðurnar áður en Obama forseti klárar sitt kjörtímabil. Hann lagði áherslu á það í kosningabaráttunni að hann væri mjög neikvæður þegar kom að fríverslunarsamningum en breytti um kúrs á lokadögunum, eins og margir Bandaríkjaforsetar hafa gert, og er það vel. Vonandi nást þessi markmið.

Það sem þetta þýðir fyrir okkur Íslendinga, því að það hefur verið skoðað nokkuð, er að stærstum hluta mjög jákvætt. Það þýðir einfaldlega að öllu óbreyttu, jafnvel þótt við fengjum enga beina aðild að samningunum, að sú vara sem væri flutt inn á Evrópumarkað og uppfyllti þá staðla gæti sjálfkrafa farið á bandarískan markað. Það yrði þar af leiðandi jákvætt fyrir íslenskan útflutning.

Norðmenn hafa tekið þetta út. Þeirra niðurstaða var að það eina neikvæða fyrir Noreg væri það að hugsanlega hefði bandarískur sjávarútvegur samkeppnisforskot gagnvart norskum inn á Evrópumarkað. Þrátt fyrir fríverslun eru ákveðnir tollar á sjávarafurðum eins og við þekkjum á markaði ESB. Það sama ætti þá væntanlega við um Ísland. Hins vegar geri ég nú ráð fyrir því að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs sé mjög sterk í samanburði við þann bandaríska, og reyndar norsks sjávarútvegs líka, en auðvitað mundi það hafa neikvæð áhrif að þurfa að keppa við innflutning frá Bandaríkjunum sem væri tollfrjáls á meðan innflutningur innan EFTA-ríkjanna bæri einhverja tolla.

Hér er talað um þrjá valkosti fyrir Ísland. Í fyrsta lagi að annaðhvort EFTA eða Ísland væri með aukaaðild að TTIP. Í öðru lagi væri sérstakur fríverslunarsamningur við Bandaríkin. Í þriðja lagi væri óbreytt ástand.

Eftir viðræður við ráðamenn í Washington og í Brussel heyrist manni að Bandaríkjamenn séu alla jafna jákvæðari fyrir því að hafa fleiri inni. Manni finnst frekar augljóst að þeir séu að búa til sitt eigið heimsviðskiptakerfi. Það hefði verið betra ef hægt væri að ná því á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en það er þó skárra að hafa eitthvað en ekki neitt. Við Íslendingar, sem erum útflutningsþjóð, munum tapa á því ef ekki eru mikil heimsviðskipti, ef slíkt kerfi er ekki mjög virkt, og auðvitað neytendur hér á landi og í rauninni í öllum löndum heimsins.

Íslandsnefndin hefur farið sérstaklega og rætt við Tyrki um fríverslunarmál. Vonandi munum við fá aðra kynslóð af fríverslunarsamningi sem fyrst við þá. Tyrkland er stórt og öflugt ríki. Það er eina lýðræðisríkið á þessum slóðum, ef Ísrael er undanskilið, þau eru í það minnsta ekki mörg. Tyrkland er langstærst og öflugast þó svo að færa megi rök fyrir því að lýðræðið sé nú kannski ekki alveg á þeim stað sem við mundum vilja. Það er að minnsta kosti stór munur á því og einræðisríki. Tyrkir eru í tollabandalagi við ESB. Það mundi gera að verkum að þeir lentu að öllu óbreyttu í nokkrum vandræðum ef þeir fengju ekki beina aðild að TTIP. Þeir höfðu miklar áhyggjur af því. Það er munur á því að vera í tollabandalagi og með fríverslun.

Við ræddum sömuleiðis við fulltrúa Brasilíumanna út af fríverslunarsamningum við MERCOSUR sem er eitt stærsta fríverslunar- og tollabandalag í Suður-Ameríku. Þar var áhugavert að heyra sjónarmið þeirra. Ég hef talað við ýmsa forráðamenn landa um fríverslunarmál í gegnum tíðina. Það er áhugavert að heyra að jafnvel þó að ríki séu mjög stór þá eru þau mjög varkár gagnvart stórum aðilum eins og Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og öðrum. Í því felst styrkur okkar. Við erum í EFTA og þó svo að við séum á okkar mælikvarða með stór ríki inni eins og Svisslendinga og Norðmenn þá er það lítið fríverslunarbandalag sem enginn er hræddur við. Það hefur enginn áhyggjur af því að EFTA muni vaða á skítugum skónum yfir eitthvert ríki eða lönd eða svæði. Það gerir að verkum að það er mikil jákvæðni gagnvart EFTA og vilji að ræða við og semja við EFTA um fríverslun. Við eigum að nýta okkur það. Í þessu felst gríðarlegur styrkur.

Það eru ýmsir sem vita ekki hvað EFTA er vegna þess að EFTA er bara að gera það sem EFTA á að gera. Evrópusambandið, svo að við berum okkur saman við það af því að það er hinn valkosturinn í Evrópusamstarfinu, eyðir meiru í áróðurs- og kynningarmál en Coca-Cola. Mér finnst illa farið með opinbert fé. EFTA á sitt lógó, svo að maður sletti, virðulegi forseti, en er fyrst og fremst að gera það sem slík bandalög eiga að gera, þ.e. að semja um fríverslun og sjá til þess að fríverslunarsamningar haldi. Þess vegna eigum við að vera í slíkum samtökum.

Ég tók sérstaklega upp Þróunarsjóð EFTA. Þegar við gerðum samninga við Evrópska efnahagssvæðið var okkur gert að greiða ákveðna upphæð í fimm ár, ef ég man rétt, frekar en sjö, til þess að styrkja svæði í Portúgal, Grikklandi og á Spáni. Evrópusambandið hefur sótt það mjög fast með þeim rökum að við komumst svo ódýrt frá Evrópusamstarfinu. Ef við værum til dæmis í Evrópusambandinu þyrftum við nettó að greiða gríðarlega fjármuni inn í Evrópusambandið. Þeir segja: Þetta erum við að nota til að hjálpa þeim fátækari — svo getum við deilt um hvort það er rétt en það eru þeirra röksemdir — en þið eruð með aðgang að markaðnum og þurfið ekki að borga neitt og þess vegna verðið þið að borga í Þróunarsjóð EFTA.

Við erum á þessu ári að borga 1 þús. milljónir í þróunaraðstoð við Evrópusambandið. Þróunaraðstoðin hefur verið víða. Hún hefur meðal annars farið til Stóra-Bretlands og í mörg önnur lönd sem við mundum telja sem allra fátækustu löndin. Ég hef lagt á það áherslu úr því að við erum að greiða í þennan sjóð — ég verð að viðurkenna að ég vildi nota þessa fjármuni frekar í aðra þróunaraðstoð en þróunaraðstoð til eins ríkasta svæðis í heimi — að við nýtum fjármunina í að hjálpa flóttamönnunum því að það er vandamál sem er komið til að vera. Það þarf að vinna úr því og hjálpa því fólki eins og við getum. Við eigum að nýta þessa peninga í það með fullri virðingu fyrir þeim verkefnum sem fyrir liggja, sem ég ætla ekki að tilgreina hér en við ættum kannski að taka sérstaka umræðu um. Maður hefur áhyggjur af því sem er langt frá öllum. Það er ekki mikið aðhald með þessu. Þó svo að við höfum tekið þetta upp, það var að mínu frumkvæði að við tókum upp málefni Þróunarsjóðs EFTA, þá er alla jafna ekki verið að ræða um sjóðinn, hvorki úthlutanir né stefnu o.fl. Það er gert á einhverju ráðherra„level“, en við þurfum að hafa aðhald með þessum málum. Stefna mín og skoðun er einfaldlega sú að við eigum að nýta Þróunarsjóð EFTA til að hjálpa þeim sem mest þurfa á því að halda. Það er enginn vafi að sá hópur er flóttamenn.

Að lokum, virðulegi forseti. Ég hef lagt á það áherslu að við reynum að nýta EFTA líka til þess að hjálpa ríkjum og gefa þau skilaboð til ríkja sem standa sig vel. Ég nefni arabíska vorið. Þar í kring er í rauninni bara eitt ríki sem er enn með alvörulýðræði og það er Túnis. Ég hef farið og heimsótt ráðamenn í Túnis, að vísu í gegnum önnur samtök sem ég er í. Við eigum að gefa skilaboð þar sem lýðræði er þó að ganga um að við virðum lýðræði og erum með lýðræði og virðum mannréttindi. EFTA og Ísland eiga að bjóða þeim ríkjum upp á fríverslunarsamninga og gefa þeim þau skilaboð að við stöndum með þeim í þeirri erfiðu baráttu sem þau eru í því að alls staðar í kringum þau þar sem arabíska vorið var er ekki haust heldur dimmur vetur þegar kemur að stjórnmálaástandi og mannréttindamálum. Það væri mjög sorglegt ef við sæjum að Túnistilraunin gengi ekki upp. Það væri vont að þurfa að sitja uppi með það að hafa ekki gert neitt þegar við gátum (Forseti hringir.) það. Ég vonast til þess að EFTA muni beita sér fyrir (Forseti hringir.) fríverslunarsamningi við Túnis.