145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:32]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af Doha-umferðinni og WTO. Ef maður spyr þá aðila sem að þessu koma þá kenna menn almennt Indónesum og Indverjum um, að þeir hafi stoppað viðræðurnar vegna reglna um höfundarétt og eitthvað slíkt.

En ég held að það sé mjög langsótt að kenna Bandaríkjamönnum um sem hafa haft frumkvæði að öllum samningalotum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og GATT. Evrópusambandið hefur aldrei haft frumkvæði að því. Ég held að það sé hæpið að kenna þeim um að þessi mál hafi ekki klárast, enda hafa þeir sýnt það í verki með því að fara í þá stóru viðskiptasamninga sem við nefnum hér.

Hv. þingmaður nefnir bíla og landbúnað, að þar séu stóru málin. Það eru ekki bara bílar. Ég nefndi bara bíla sem dæmi. Það eru almennt tæknilegar viðskiptahindranir á iðnaðarvörum.

Svo eru hlutir eins og opinber útboð sem eru stórt mál. Þar má alveg færa full rök fyrir því að Bandaríkjamenn hafi verið mjög harðir í verndarstefnu sinni.

Auðvitað hugsar hver þjóð um sína hagsmuni. Þetta snýst allt um hagsmuni þjóða, skárra væri það nú. Okkur, sem kosin erum á Alþingi Íslendinga, ber að gæta hagsmuna Íslendinga. Það verða ekki aðrir til þess. Og þó að við göngum fram með málefnalegum og sanngjörnum hætti þurfum við auðvitað að hugsa um hagsmuni landsmanna okkar. Það gera allar þessar þjóðir svo sannarlega og þó svo að þjóðir séu komnar í Evrópusambandið hugsa þær um sína hagsmuni. Það er bara vegna þess að við búum í mannheimi.

Aðalatriði málsins er þetta: Ég treysti því að hv. þingmaður beiti sér eins og hann getur fyrir því að klára málin varðandi viðskiptastefnu Íslands þannig að það verði þá í það minnsta (Forseti hringir.) tekið til alvarlegrar umræðu nú, helst vildi ég að við samþykktum það mál því að mér heyrist við hv. þingmaður vera sammála að stærstum hluta þegar kemur að viðskiptamálum.