145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

framlög til barnabóta.

[15:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er greinilega ástæða fyrir hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér þessa skýrslu vegna þess að niðurstaða hennar er akkúrat sú að það séu aðeins börn einstæðra foreldra og hinna allra tekjulægstu sem njóti barnabóta en ekki börn fólks í sambúð, og að barnabætur á hvert barn á Íslandi séu þess vegna einungis um tveir þriðju af því sem mætti búast við annars staðar á Norðurlöndunum.

Hann getur tekið dæmi, eitt einstakt dæmi, af einstæðu foreldri en hann forðast að taka dæmi af foreldri í sambúð þar sem skerðingarmörkin hjá foreldri með eitt barn byrja rétt við 200 þús. kr. og skerðingin verður full við 409 þús. kr. Það er auðvitað sá veruleiki sem er vandamálið. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka ekki skerðingarmörk og breyta þessum stuðningskerfum, sem alls staðar á Norðurlöndunum eru við allan þorra (Forseti hringir.) fólks, í lágtekjustuðning. Það er sú grundvallarbreyting sem veldur því að fólk þarf að flytja af landi brott til að fá velferðarstuðning sem ætti að vera í boði á Íslandi. Það er algjör óþarfi að flytja fólk út til að það upplifi að það geti fengið eðlilegan stuðning við framfærslu barna sinna.