145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

meðferð lögreglu á skotvopnum.

392. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin.

Þetta eru allmörg tilfelli sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. frá árinu 2011, og sýnir auðvitað mikilvægi þess að halda bókhald í raun og veru yfir þau tilfelli sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna þannig að við höfum sem mest gögn og aðgengilegust í umræðunni.

Þetta eru allmörg tilfelli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún þekki til þess eða geti aflað gagna um það hvað af þessum 43 tilvikum sem upp hafa komið, tilfelli sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna hjá almennu lögreglunni og svo þau 393 sem hún nefndi hjá sérsveit lögreglustjóra sem lýtur aðeins öðrum lögmálum, fela í sér bara eitthvert hefðbundið eftirlit og hvað getum við sagt, er meira út úr hinu venjubundna ferli. Hvaða tilfelli eru óvænt, ef svo má að orði komast?

Áhugavert væri að fá slík gögn og ég ítreka að það er mjög mikilvægt til þess að umræðan sé sem upplýstust að við höfum góða yfirsýn yfir þetta. Kannski ætti það að vera meiri hluti af starfi þingsins, bara svo ég nefni það, til dæmis hv. allsherjar- og menntamálanefndar að fylgjast sérstaklega með þessum málum með reglubundnum hætti til að umræðan geti verið þannig að hún taki sem mest mið af gögnum og upplýsingum.

Svo langar mig að ítreka síðustu spurningu mína, sem hæstv. ráðherra gafst ekki tími til að svara, um eftirlitið með skotvopnanotkun lögreglu, hvernig því verði háttað, og þeim atvikum sem verða á vettvangi þar sem skotvopnum er beitt.

Það sem væri áhugavert og tengist því sem ég nefndi áðan, um aðgengi að gögnum, að það eru atvik sem uppfylla skilyrði um beitingu skotvopna. Væntanlega er þeim sjaldnast beitt í þeim atvikum þannig að það er auðvitað líka áhugaefni fyrir þingið að átta sig á því hvenær skotvopnum hefur verið beitt, eða hve oft. Ég nefni það hér í lokin hvernig við getum (Forseti hringir.) einhvern veginn gert aðkomu þingsins reglubundnari en að það sé í formi einstakra fyrirspurna þegar þingmönnum dettur það í hug, herra forseti.