145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

skatteftirlit og skattrannsóknir.

389. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Skildi ég fjármálaráðherra rétt? Er það þannig að nýlegar lagabreytingar hafi verið afturför í skatteftirliti og aðhaldi með skattsvikum? Er það þannig að breytingar á endurgreiðslu og virðisaukaskatti af framkvæmdum við eigið húsnæði hafi ýtt tekjum undir borðið og leitt til aukinnar svartrar atvinnustarfsemi? Sýna endurgreiðslur eftir að fallið var frá 100% endurgreiðslu og farið niður í 60% að þær tekjur sem verða við framkvæmdir af þessu tagi skili sér síður?

Ég bið ráðherrann um að fara betur ofan í það. Ég þakka honum að öðru leyti fyrir svörin en spyr hvort unnið sé eftir heildstæðri áætlun um það að vinna gegn skattsvikum. Hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því að allar þær stofnanir sem að málinu koma og ólík ráðuneyti vinni eftir einu heildstæðu plani til að hámarka árangur í þessu mikilvæga verkefni?

Ráðherra minnist réttilega á að reglur skipta hér miklu máli. Hefur hann látið gera yfirlit yfir þær reglur sem bæta má og taka má á til þess að minnka skattsvik? Liggur slíkt yfirlit fyrir, virðulegur ráðherra?

Og síðast en ekki síst af því að ráðherrann á náttúrulega eftir að leggja fram eitt frumvarp til fjárlaga á þessu kjörtímabili áður en kemur að næstu alþingiskosningum: Gerir ráðherrann ráð fyrir því að leggja til meiri fjármuni í skatteftirlit og skattrannsóknir á næsta fjárlagaári en hugsaðir eru til þess í dag?