145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það sem er svo frábært við alþjóðastarfið er að maður er að vinna óháð flokkslínum. Maður er oft að vinna með fólki sem er algjörlega á hinum pólnum við mann í stjórnmálum en maður nær að vinna að tillögum að lagfæringum á þessum helstu málaflokkum sem skipta síðan svo miklu máli þegar það síast inn hér heima, þverpólitískt.

Ég verð að segja að einhver mesta ánægja sem ég hef fengið út úr vinnunni sem þingmaður er að fá tækifæri til að vinna með fólki óháð því hvaðan það kemur, óháð því frá hvaða löndum það kemur, óháð stjórnmálaflokkum. Maður spyr ekki einu sinni um það. Það er aldrei rætt til dæmis hjá Alþjóðaþingmannasambandinu úr hvaða flokki fólk er. Það er bara talað um löndin.

Mér finnst frábært að heyra þann samhljóm sem ég hef fundið í dag og við höfum auðvitað, þingmennirnir í þessu alþjóðastarfi, talað saman á göngunum. Núna skynja ég að við séum að fara í aðgerðir sem er frábært.

Eitt af því sem við verðum að sjálfsögðu að leggja mikla áherslu á eru þýðingarnar. Það er líka rosalega lýjandi. Maður er kannski búinn að leggja mikla vinnu í eitthvað. Svo kemur maður heim og maður er að berjast við vindmyllur við að fá einfalda hluti gerða sem kosta lítið miðað við allan tilkostnaðinn á þessu batteríi.

Við þurfum að fara heildrænt yfir þetta. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr þessu samstarfi okkar þingmanna þvert á flokka í þessum málaflokki.