145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál.

77. mál
[17:22]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en treysti því að málið fari til nefndar og fái viðeigandi meðferð. Það segir sig sjálft að landhelgi þessara þriggja ríkja er gífurlega stór og reynslan sýnir okkur að fiskurinn hefur sporð og syndir á milli, hann virðir ekki landamæri, hann virðir ekki mörk fiskveiðilögsögu Íslands og Grænlands eða Íslands og Færeyja. Það liggur því í hlutarins eðli að það væri ákveðin sveiflujöfnun í því ef þessi þrjú ríki kæmu sér saman um sameiginlega nýtingu á fiskstofnum þannig að hægt væri að veiða úr sameiginlegum stofnum sitt á hvað.

Auðvitað er ákveðið samstarf til staðar, bæði hjá vísindamönnum og hjá ráðamönnum. Það eru ákveðin skipti á veiðiheimildum og veiðileyfum sitt á hvað. En þetta er allt hægt að bæta og fagna ég því mjög hér að við reynum að fikra okkur áfram veginn í þessum efnum.