145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er rétt að kannski ætti að varpa þessari spurningu til hv. þm. Birgittu Jónsdóttur en hvað varðar þá spurningu hvort frjálshyggjumenn séu velkomnir í Pírata, þá er svarið afdráttarlaust já. Það kemur fram í grunnstefnu Pírata að það að hafna einhverjum ummælum, alveg sama frá hverjum þau koma, sem eru einhvers annars efnis, er á skjön við grunnstefnu Pírata. Þar kemur fram í lið 1.1: „Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.“ Í næsta lið, 1.2, segir:

„Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.“

Frá upphafi hafa alltaf verið meðlimir Pírata, alla vega eins lengi og ég hef verið með hreyfingunni, frá því einhvern tímann um sumarið 2012, sem kalla sig frjálshyggjumenn. Það er algjör nýlunda að það komi einhverjum á óvart eða sé til umræðu.

Frjálshyggjumenn eru velkomnir í Pírata, allir eru velkomnir í Pírata hvort sem þeir kalla sig frjálshyggjumenn eða ekki, hvort sem þeir kalla sig femínista eða ekki. Það eina sem þeir þurfa að eiga sameiginlegt er að aðhyllast grunnstefnu Pírata og hún er skilmerkilega sett fram á vefsetri okkar og hvet ég alla þingmenn til að skoða hana.

Þegar kemur að ESB-málinu hefur það verið afstaða okkar frá upphafi að það sé ákvörðun sem eigi að liggja hjá þjóðinni. Það er í sjálfu sér ekki hlutverk stjórnmálamanna að ákveða þetta upp á eigin spýtur heldur þarf þjóðin að eiga þátt í þeirri ákvörðun. Eftir allt sem á undan er gengið í kringum umsóknarferlið að ESB þykir okkur einsýnt að greiða eigi atkvæði um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum eða ekki og í lokin að sjálfsögðu að greiða atkvæði um fulla aðild að samningaviðræðum loknum.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns en skal gjarnan svara einnig hverju öðru sem er.