145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu. Þetta er í þriðja sinn sem við ræðum þetta mál á Alþingi. Í fyrri tvö skiptin fór ég yfir stóru myndina og það er rétt að gera það á ný í örstuttu máli.

Þátttaka Íslands í þessum viðræðum er í raun rökrétt framhald af stefnu íslenskra stjórnvalda síðustu áratugina. Ísland er aðili að þjónustusamningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá 1995. Ísland hefur verið virkur þátttakandi í alþjóðlegum viðræðum um viðskiptamál í áratugi og aðili að tugum fríverslunarsamninga við um 70 ríki. Þjónustuviðskipti eru ört vaxandi í utanríkisviðskiptum Íslands. Það er sá angi alþjóðaviðskipta sem vex hvað hraðast. Okkur ber að okkar mati skylda til að taka þátt í þessu og tryggja stöðu íslenskra fyrirtækja á þessum alþjóðlega markaði.

Hér er um að ræða hefðbundnar viðskiptaviðræður sem eru í venjubundnu ferli. Þessar viðræður eru í raun ekki að neinu leyti frábrugðnar hefðbundnum viðskiptasamningaviðræðum, þar á meðal fríverslunarviðræðum. Flest helstu viðskiptaríki okkar taka þátt í þessum viðræðum, þar með talin EFTA-ríkin, Bandaríkin, Kanada, Japan og ESB-ríkin.

Varðandi ferlið má tilgreina að eins og ávallt er það samstarfsverkefni nokkurra ráðuneyta og fleiri aðila. Eins og ég sagði áðan eru þetta hefðbundnar viðræður. Reglulegt samráð er haft við helstu aðila sem tengjast þessu, hagsmunaaðila, þar á meðal félög atvinnurekenda og launþega. Allar ákvarðanir eru teknar af utanríkisráðuneytinu, þar sem er framhald viðræðna eins og gengur, og eftir atvikum í samstarfi við fagráðuneyti. Samningamenn Íslands taka fullan þátt í öllum viðræðum og er afstaða okkar mótuð í samræðu við viðkomandi fagráðuneyti. Við munum þurfa að efla þetta enn frekar á næstunni þegar áherslan þyngist og það þarf að fara að leiða þessar viðræður til lykta.

Utanríkismálanefnd hefur verið upplýst um framgang viðræðna. Þær hafa verið ræddar í þingsal og grein gerð fyrir þeim í skýrslum til Alþingis. Samningurinn kemur eins og allir samningar af þessu tagi til kasta Alþingis á endanum til samþykkis eða synjunar.

Til að bregðast við fyrirspurnum hv. þingmanns er ég að sjálfsögðu reiðubúinn að skoða það að koma málinu þannig fyrir að við getum átt umræður í þinginu áður en kemur til undirritunar af Íslands hálfu. Við förum í gegnum það og það er ekkert útilokað að slíkt verði. Auðvitað greiðum við svo atkvæði um samninginn á endanum.

Það er rétt að taka fram að framkvæmdarvaldið fer með þessar viðræður eins og aðrar og leggur að lokum samning fyrir þingið til synjunar eða samþykktar.

Staðan á samningunum er núna sú að það er stefnt að því að klára þá á þessu ári. Textavinna er komin mjög langt í mörgum köflum og viðaukum en að sjálfsögðu er engu lokið fyrr en leikurinn hefur verið flautaður af. Við höfum tekið mjög alvarlega þær áhyggjur sem hafa verið uppi um skort á upplýsingum sem við veitum. Það er allt uppi á borðum sem við erum að segja og gera.

Hér var spurt hvað við hefðum lagt til málanna. Upphafstilboð okkar er að sjálfsögðu á vefnum og svo uppfærum við reglulega hvað við leggjum til og leggjum fram. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert svona, að allt sé uppi á borðinu. Við getum þó ekki birt gögn annarra ríkja. Það er þeirra að gera það eftir þeirra lögum og reglum.

Almennt vil ég bæta því við að ég held að fá ríki sem eiga jafn mikið undir samningum eins og hér er um að tala, smáríki eins og Ísland, geti komið stefnu sinni á framfæri og unnið að því að efla viðskipti sín út á við.

Ég mun í seinni ræðu minni koma inn á fleiri punkta. Ég vil þó taka fram að tekin var ákvörðun 2012 um að fara í þetta ferli og síðan hefur verið unnið að þessu jafnt og þétt. Þetta tekur langan tíma. Við vitum það og það er líka mikilvægt að við séum á tánum við að passa hlutina. Ákveðnir þættir eru ekkert inni í þessu, eins og heilbrigðisþjónustan sem hv. þingmaður nefndi réttilega. Allt umboð okkar samningamanna byggir á því tilboði sem liggur frammi á vef utanríkisráðuneytisins. Það er engin heimild til að semja um neitt annað en þar er.

Við þurfum líka að hafa í huga, og ég kem reyndar inn á það á eftir, að það er misskilningur með ákveðna hluti. Ég ætla til dæmis að nefna að allar skuldbindingar sem við tökum á okkur eru afturkræfar. Það er misskilningur að þær séu ekki afturkræfar. Við getum hvenær sem er sem fullvalda ríki (Forseti hringir.) sagt okkur frá þessum samningi. Ég mun svo koma nánar inn á frekari vangaveltur í seinni ræðu.