145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér sýnist að sú umræða sem hér hefur átt sér stað undirstriki það að töluvert er um misskilning eða mismunandi skilning þingmanna á því hvað er að finna í þessum samningi. Þess vegna held ég að það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra hefði frumkvæði að því að gefa þinginu rækilega skýrslu um hvað er í gangi og fara ítarlega í suma af þeim þáttum sem hér hafa verið ræddir, einkum þá sem lúta að heilbrigðisgeiranum og orkugeiranum.

Ég get tekið undir það að hæstv. ráðherra virðist hafa lagt sig í líma við að koma upplýsingum sem varða Ísland á framfæri. Rétt er að undirstrika það líka vegna þess að hér hefur verkalýðshreyfingin og barátta hennar gegn ýmsum þáttum þessa samnings verið sérstaklega reifuð, að í upphafi máls var lagt af stað með það í farteskinu að haft yrði samráð við ASÍ, BSRB, BHMR og fleiri aðila sem málinu tengjast. Mér sýnist því að Ísland hafi skorið sig frá öðrum ríkum að því leyti til að miklu meira gagnsæi er um þetta en hjá öðrum ríkjum.

Ég vil hins vegar taka undir þau orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur um að Ísland ætti að hafa frumkvæði að því að hvetja önnur ríki til þess að koma sínum gögnum líka á framfæri.

Ég vil aðeins reifa hérna þær fréttir sem komu fram í Morgunblaðinu 3. desember að loknum samningafundi. Þar var því bókstaflega haldið fram að Ísland ætti aðild að viðræðum um að taka upp í TiSA-samninginn ákvæði sem beinlínis gerði það að skyldu að fella niður greiningu á orku á orkumarkaði út frá uppruna orkunnar. Með öðrum orðum, að fella ætti kol og kjarnorku undir sama svið og jarðorkuna, vindorku og sólarorku. Meira að segja var sagt í Morgunblaðinu að Ísland hefði verið annað tveggja ríkja sem hefði haft frumkvæði að þessu. Mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra verði að segja okkur (Forseti hringir.) hvort þetta sé rétt og ef svo er, þá verður hann að rökstyðja af hverju Ísland sendir þannig (Forseti hringir.) skilaboð sem vinna gegn markmiðum Íslands á öðrum sviðum.