145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[16:02]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Það er allt of sjaldan sem við ræðum ástand fiskstofna og hvernig við nýtum auðlindirnar á þessum stað.

Ég hefði haldið að hv. þingmaður hefði átt að sleppa því að hreykja sér af því að hann fylgdist vel með. Ég er hér með frétt frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því 8. maí 2015. Þar segir:

„Strandríkin ákváðu að taka upp nýja aflareglu, með aðlögun nú í sumar, sem er í samræmi við nýjustu ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins og Hafrannsóknastofnunar. Þessi nýja aflaregla mun leiða til lægri heildarafla í upphafi vertíðar vegna varúðarsjónarmiða. Er þetta mjög í samræmi við hagsmuni Íslands vegna mikilvægis loðnu fyrir lífríki hafsins hér við land.“

Þá vil ég nú meina að þetta sé akkúrat verndunarsjónarmið fyrir þau byggðarlög sem eiga mest undir hvað varðar afkomu loðnustofnsins.

Ég tek heils hugar undir það að við þurfum að setja meiri peninga í rannsóknir og kannski ekki síst að nota loðnuflotann meira til að leita að loðnu. Eitt eða tvö skip; við vitum það sem höfum stundað loðnuveiðar — hvort þeir voru með tvö, þrjú skip til viðbótar — að það þarf miklu fleiri skip til að leita að loðnunni. Loðnan er brellin og ég held að feillinn hafi verið að fara ekki með nógu mörg skip.

Ég held að Norðmenn hafi bara ekki fundið þessa loðnu — eins og það er nú erfitt að horfa upp á Norðmenn vera að veiða hérna meðan við erum að bíða eftir að taka hana á verðmætari stað. Þeir fóru bara ekki nógu austarlega. Sjómenn hafa sagt mér að þeir (Forseti hringir.) hafi verið að veiða þar á stóru svæði, og þessi loðna hafi bara ekki mælst í þessum leiðangri. Ég hvet okkur til að setja meiri peninga (Forseti hringir.) í rannsóknir og Hafrannsóknastofnun að nota loðnuflotann meira til rannsókna.