145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurskoðun reglugerða varðandi hjálpartæki.

519. mál
[16:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann beindi til mín munnlegri fyrirspurn um hvort ég hygðist endurskoða reglugerðir varðandi hjálpartæki, svo sem reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013, í því skyni að draga úr þörf fyrir endurnýjun umsókna fyrir hjálpartæki eða styrki vegna hjálpartækja hjá þeim hópi fólks sem er með varanlega fötlun eða sjúkdóm.

Þar sem fyrirspyrjandi spyr hvort ég hyggist endurskoða reglugerð varðandi hjálpartæki vil ég í upphafi geta þess að það er aðeins ein reglugerð um hjálpartæki sem fellur undir málefnasvið mitt sem heilbrigðisráðherra. Það er sú reglugerð sem hér var vitnað til. Í upphafi er rétt að geta þess að samkvæmt sjúkratryggingalögum er skylt að fá fyrirframsamþykki frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kostnaðarþátttöku við öflun nauðsynlegra hjálpartækja. Því verður ekki komist hjá umsóknum um hjálpartæki að óbreyttum lögum.

Reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013 tók gildi 1. janúar 2014. Við gerð þessarar reglugerðar fór fram endurskoðun á umsóknarferli og kröfum til umsókna. Þá var einnig gerð sú breyting að öðrum heilbrigðisstarfsmönnum en læknum er í auknum mæli heimilt að senda inn umsóknir og staðfesta þörf fyrir hjálpartæki. Þá er heldur ekki lengur nauðsynlegt að læknisvottorð fylgi umsókn heldur nægir nú að í umsókn komi fram mat þess heilbrigðisstarfsmanns sem hverju sinni vinnur að lausn fyrir einstakling, auk lýsingar hans á skertri færni hlutaðeigandi og rökstuðnings fyrir þörfina fyrir hjálpartæki. Þessi breyting hefur einfaldað umsóknarferlið til muna. Innleiðing rafrænna umsókna á síðasta ári hefur einnig einfaldað umsóknarferlið. Nú er hægt að sækja um hjálpartækin rafrænt og senda inn rafræn læknisvottorð. Þá var með reglugerðinni gerð sú breyting frá því sem áður hafði verið að læknisvottorð vegna þeirra sem eru með varanlega fötlun eða langvinna sjúkdóma gilda í ótakmarkaðan tíma.

Ég vil einnig geta þess að undanfarna mánuði hefur farið fram mikil vinna hjá Hjálpartækjamiðstöð á vegum Sjúkratrygginga Íslands. Þar á bæ hefur verið mörkuð ný framtíðarsýn og úrbótavinna fyrir Hjálpartækjamiðstöðina, þ.e. að bæta þjónustu og auka skilvirkni, og er sú vinna í fullum gangi. Hún hefur hingað til meðal annars skilað því að áður voru 278 manns á biðlista eftir þjónustu á verkstæði, en eru í dag í kringum 40, þannig að biðlisti eftir þjónustu á verkstæði hefur styst verulega á grundvelli þeirrar úrbótavinnu sem Sjúkratryggingar Íslands hafa látið fara fram við Hjálpartækjamiðstöðina. Þar hafa allir lagst á eitt í því að bæta verkferla og láta hlutina ganga betur en áður var. Því ber að fagna og þakka sömuleiðis fyrir þá vinnu sem þar hefur verið unnin.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Páll Valur Björnsson spyr hvort ráðherra hyggist endurskoða reglugerð um hjálpartæki í því skyni að draga úr þörf á endurnýjun umsókna hjá þeim sem búa við varanlega fötlun eða sjúkdóma. Í ljósi þess að umsóknarferlið hefur eins og ég hef getið um verið einfaldað mjög með núgildandi reglugerð tel ég ekki að svo stöddu þörf á endurskoðun reglugerðarinnar um styrki vegna hjálpartækja, en að sjálfsögðu erum við á hverjum tíma opin fyrir uppbyggilegri gagnrýni eða ábendingum um það sem betur má fara. Það er sjálfsagt að taka hlutina til endurskoðunar í ljósi þess sem safnast upp þegar við höfum unnið í einhvern tíma með þá reglugerð sem hér liggur fyrir til umræðu.