145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi vangaveltur mínar við hv. 8. þm. Norðvesturkjördæmis, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, um hvort þetta mál ætti heima hjá ríkinu eða sveitarfélögum. Ég skil mætavel þau rök að þjónusta sem veitt er nær viðkomandi býður upp á að hann hafi einhver áhrif á ferlið eða eitthvað því um líkt. Það er jú auðveldara að eiga við nærsamfélag sitt en ríkið.

Hins vegar fæ ég ekki séð að hér sé raunverulega um að ræða beina þjónustu eins og þá sem sveitarfélögin inna af hendi gagnvart fötluðu fólki sem dæmi, heldur einfaldlega fjárútlát. Ástæðan fyrir því að ég fór í vangaveltur um ríkið á móti sveitarfélagi er að hjá ríkinu er kerfi sem heitir almannatryggingakerfi. Það er hugsað til þess að fólk sem ekki getur unnið af einhverjum ástæðum hafi ofan í sig og á. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að það kerfi sé mjög gallað og ófullkomið, en mér finnst samt að ef einstaklingur er í þeim aðstæðum að hann lendir í skerðingum samkvæmt þessu frumvarpi og fær ekki vinnu eða slíkt — ef hann lendir í þessum skerðingum og getur ekkert að því gert velti ég fyrir mér hvort hann eigi ekki heima í almannatryggingakerfinu, auðvitað með þeim fyrirvara að það þarf að laga helling þar. En mér finnst fókusinn á þetta tiltekna frumvarp vera rangur ef við veltum fyrir okkur fólki sem er í aðstæðum sem það ræður ekki við. Ef það er í aðstæðum sem það ræður ekki við, ætti það þá ekki frekar að vera kerfi sem hugsað er til þess að hjálpa fólki í aðstæðum sem það ræður ekki við?

Hérna finnst mér vera fyrst og fremst fjallað um aðstæður sem fólk ræður við og ég sé ekki betur en að það sé forsenda frumvarpsins. Það er þess vegna sem ég fer út í þessar vangaveltur í sambandi við almannatryggingakerfið. Á fólk sem lendir í skerðingum sem ekki getur að því gert (Forseti hringir.) ekki einfaldlega heima í almannatryggingakerfinu?