145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkur atriði sem mig langar að eiga orðastað um við hv. þingmann. Mér fannst hv. þingmaður tala þannig í fyrri hluta ræðu sinnar að hún væri frekar á þeim nótum að hún vildi ekki beita skilyrðingum og talaði jafnvel um hvort ekki væri betra að fara í þá átt að setja frekar bann við því að skilyrðingum væri beitt. En líkt og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu beita sveitarfélögin skilyrðingum með ólíkum hætti núna. Eða misskildi ég hv. þingmann hreinlega? Ég held að það væri ágætt að heyra aðeins betur um það. Það skiptir svolitlu máli upp á framhaldið hvernig á því máli er tekið, því að líkt og hv. þingmaðurinn kom inn á eru allir sammála um grunninn, held ég. Við viljum fá fólk í virkni. Þar erum við sammála. En hvað er jákvæð nálgun? Við sem höfum talað gegn þessu frumvarpi teljum að þar sé einmitt ekki jákvæð nálgun. Mér fannst hefði mátt skilja það undir lok ræðu hv. þingmanns að ef tilteknar breytingar (Forseti hringir.) væru gerðar væri hægt að líta á það sem einhvers konar jákvæða nálgun. Gæti hv. þingmaður aðeins fara betur yfir það?