145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[17:47]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ósköp vel að menn komi hér með tillögu til úrbóta í ferðamálum. Þessi tiltekna tillaga lýtur að afmörkuðum þætti sem er alveg ágætt til að afmarka umræðuna, áningarstöðum Vegagerðarinnar sem kallaðir eru. Það eru hátt í 500 áningarstaðir sem Vegagerðin hefur komið á laggirnar í kringum landið og þeir eru mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu. Ég tek undir það með hv. þingmanni og flutningsmönnum þessarar tillögu.

Mér finnst hins vegar skorta í þessa þingsályktunartillögu einhverjar hugmyndir um úrbætur. Ég veit að hér er verið að álykta um að skipa enn einn starfshópinn. Menn gætu sagt: Er það hagkvæmasta leiðin? Er það fallið til árangurs að skipa starfshóp þótt þetta sé mjög skýrt og starfstími hans mjög afmarkaður? Ég fagna því, hér er gefinn knappur tími til að ræða þessi mál. Ég velti samt fyrir mér hvort einfaldari leið hefði ekki verið að senda tillögur til hinnar nýstofnuðu Stjórnstöðvar ferðamála og koma einhverjum ábendingum þar á framfæri. Hér segir að tillagan feli í sér ábendingu um að halda áfram á þegar markaðri braut, en á sama tíma er vikið að því að þetta sé allt í lamasessi. Hér eru 469 áningarstaðir en það eru eingöngu salerni á 27 áningarstöðum. Viljum við halda áfram á markaðri braut eða þurfum við ekki frekar að líta á einhverjar nýjar lausnir? Þá hef ég það sérstaklega í huga að útvista eða setja einhverja af þessum áningarstöðum í fóstur til einkaaðila. (Forseti hringir.) Er það eitthvað sem hv. þingmanni mundi hugnast?