145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

búvörusamningur og mjólkurkvótakerfi.

[14:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hæstv. forsætisráðherra hélt að ég hefði verið frammi að fá mér tertu undir umræðunum áðan. Það var nú ekki tilfellið, hæstv. forsætisráðherra, ég hlustaði vel á orð þín og þarf enga sérstaka skólun í því hvernig ég tala um fólk. Ég reyni að tala fallega um fólk og ég reyni að tala fallega um bændur sömuleiðis, enda snýst þetta ekkert um það. Þetta snýst um það hvort maður hefur lýðræðislega umræðu í einu samfélagi um það hvernig maður ætlar að eyða meira en 1 millj. kr. af fjármunum hvers heimilis í landinu, um 140 milljarða samning sem bundinn er í tíu ár fram yfir tvennar næstu alþingiskosningar; að við ræðum það en segjum ekki bara: Búið og gert.

En ég skil vel að forsætisráðherra segi um þennan nýja búvörusamning að það sé búið mál og afgreitt vegna þess að það er einfaldlega þannig að þessi fjáraustur er alveg glórulaus. Það nást einfaldlega ekki markmið um framfarir og endurbætur (Forseti hringir.) á úreltu landbúnaðarkerfi í þágu bænda og í þágu neytenda. Þetta er áfram samningur fyrir milliliðina, (Forseti hringir.) fyrir Kaupfélag Skagfirðinga, fyrir bankana, fyrir (Gripið fram í.) kvótakaupin og vaxtaokrið.