145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég mun ekki geta greitt þessari tillögu atkvæði mitt og mun vera á rauða takkanum í þessu tiltekna máli. Mér finnst mjög mikilvægt að geta þess að áleitnum spurningum hefur ekki verið svarað, spurningum sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson lagði fram í umræðum um þetta mál, og vil vekja athygli á þeim þannig að þingmenn geti aðeins hugsað sinn gang.

Af hverju er framlag Íslands þrjátíufalt meira en Portúgals miðað við íbúafjölda? Af hverju taka bara 50 af 200 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þátt í IFBA? Af hverju vilja Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Japan, Tævan, Argentína, Marokkó og fleiri ríki ekki vera með? Hvers vegna ættu íslenskir skattgreiðendur að leggja til hliðar 2,3 milljarða til að styðja útrás íslenskra fyrirtækja í Asíu? Hafa einhver íslensk fyrirtæki þrýst á aðild Íslands að IFBA?

Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum þetta í huga þegar við greiðum atkvæði um þetta mál hér í dag.