145. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir réttum þremur mánuðum lagði ég fram fyrirspurn til skriflegs svar til hæstv. heilbrigðisráðherra. Þar spyr ég hvort til standi að breyta rekstrarformi innan heilsugæslunnar eða annarra heilbrigðisstofnana og ef svo er, hvert sé markmiðið með breytingunni og hvort ráðherra hyggist bera breytinguna undir Alþingi. Ég spyr jafnframt hvort til standi að bjóða út rekstur á heilsugæslustöðvum eða öðrum heilbrigðisstofnunum.

Í þrjá mánuði hefur hæstv. ráðherra ekki látið svo lítið að sinna skyldu sinni að svara mér en hann svaraði mér í morgun með óbeinum hætti. Hann óskaði eftir því með mjög skömmum fyrirvara að fá að koma á fund velferðarnefndar, sem ég sem formaður gaf honum auðvitað tækifæri á að gera, og kynnir okkur að hann sé kominn með nýtt rekstrarlíkan, fjármögnunarlíkan, kröfugerð, varðandi útboð á heilsugæslu. Ég ætla ekki að dæma um þær aðgerðir, ég treysti mér ekki til þess á þessari stundu, en eitt veit ég, það á að bjóða út þrjár nýjar heilsugæslustöðvar. Því á ekki að fylgja neitt sérstakt fjármagn enda eiga sjúklingarnir að geta fært sig á milli heilsugæslustöðva, en 13 þús. manns vantar líka heimilislækni. Og það á að rúmast inni í þessum breytingum.

Nú er búið að fara þannig með heilsugæsluna. Af hverju er ekki hægt að setja inn nýtt fjármögnunarlíkan, kanna hvernig það virki og taka þá frekari ákvarðanir um rekstrarform?

Ég held að við í þessum sal þurfum að sammælast um að breyta lögum um Sjúkratryggingar Íslands þannig að Alþingi hafi um það að segja í hvaða átt heilbrigðiskerfið þróist og ekki sé hægt í skjóli laga að laumast á bak við þingið með breytingar sem þessar.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að gengið verði á ráðherra með svör. Það er eðlilegt að hann svari fyrirspurnum sem berast frá alþingismönnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna